Þungu fargi létt af Ronaldo

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í gær. AFP

Þungu fargi er létt af portúgölsku stórstjörnunni Cristiano Ronaldo en kappinn opnaði markareikning sinn fyrir Juventus í 2:1 sigri meistaranna gegn Sassuolo í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í gær.

Ronaldo, sem gekk í raðir Juventus í sumar frá Real Madrid fyrir metfé eða 100 milljónir evra, hafði ekki náð að skora í fyrstu þremur leikjum Juventus en hann skoraði fyrsta markið í leiknum í gær.

„Ég er ánægður. Ég hef lagt hart að mér og ég vissi að mörkin myndu koma. Ég er þakklátur liðsfélögum mínum sem hafa hjálpað mér að aðlagast ítalska fótboltanum,“ sagði Ronaldo eftir leikinn

Ronaldo, sem hefur hampað Evrópumeistaratitlinum með Real Madrid undanfarin þrjú ár, verður í eldlínunni með Juventus í Meistaradeildinni á miðvikudaginn en þá mætir liðið Valencia.

„Meistaradeildin er mitt uppáhaldsmót,“ sagði Ronaldo, sem skoraði 15 mörk í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. „Þetta er erfiður riðill en við vitum að við getum gert það gott og Juventus þarf að einbeita sér að því að verða með þeim bestu,“ sagði Ronaldo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert