Þungu fargi létt af ítalska landsliðinu

Cristiano Biraghi reyndist hetjan og er hér með boltann í …
Cristiano Biraghi reyndist hetjan og er hér með boltann í leiknum í kvöld. AFP

Ítalska karlalandsliðið í knattspyrnu náði loksins að komast á beinu brautina á ný eftir að hafa mistekist að tryggja sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Rússlandi í sumar. Ítalía hafði aðeins unnið einn af síðustu 10 leikjum sínum en náði að vinna hádramatískan sigur á Póllandi í kvöld.

Þjóðirnar áttust þá við í 3. riðli A-deildar Þjóðadeildar UEFA. Allt stefndi í markalaust jafntefli, en í uppbótartíma tryggði Cristiano Biraghi 1:0 sigur Ítalíu. Liðið er þá með fjögur stig í riðlinum en Pólland hefur eitt. Pólska liðið varð með úrslitunum það fyrsta sem er öruggt um fall úr A-deildinni og niður í B. Bæði eiga þau eftir að mæta Portúgal í lokaleikjum riðilsins. Portúgal hefur unnið báða leiki sína til þessa í riðlinum. 

Ítalska landsliðið tapaði í umspili við Svíþjóð um sæti á HM í nóvember í fyrra. Á þessu ári hafði liðið spilað átta leiki og aðeins unnið vináttuleik við Sádi-Arabíu í maí þar til kom að sigrinum í kvöld.

Einnig var leikið í C-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld. Ísrael vann 2:0 sigur á Albaníu í 1. riðli og eru báðar þjóðir nú með þrjú stig eins og Skotland eftir tvo leiki í riðlinum. Í 4. riðli vann Svartfjallaland 4:1 sigur á Litháen og er með 7 stig í öðru sæti, stigi á eftir Serbíu og stigi á undan Rúmeníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert