Lætur fyrrverandi vinnuveitendur heyra það

Louis van Gaal stýrði liði Ajax á árunum 1991 til …
Louis van Gaal stýrði liði Ajax á árunum 1991 til ársins 1997. AFP

Fyrrverandi knattspyrnustjórinn Louis van Gaal er ekki sáttur við sitt fyrrverandi félag Ajax í Hollandi. Van Gaal stýrði liði Ajax á árunum 1991 til ársins 1997. Liðið varð þrívegis hollenskur meistari undir stjórn van Gaals og þá varð það Evrópumeistari árið 1995. Van Gaal stýrði síðast liði Manchester United á árunum 2014 til 2016 en hefur ekki þjálfað síðan.

Marc Oversmars, yfirmaður íþróttamála hjá Ajax, hefur kallað eftir því að keppni í hollensku úrvalsdeildinni aflýst vegna kórónuveirunnar. Fari svo verður Ajax að öllum líkindum krýnt meistari líkt og Club Brugge í Belgíu en Belgar tóku þá ákvörðun að aflýsa sinni deildarkeppni í vikunni.

„Það þarf að klára keppni þegar kórónuveiran hefur verið lögð að velli i Evrópu,“ sagði van Gaal við hollenska fjölmiðla. „Í íþróttum eiga úrslitin að ráðast á vellinum. Ajax hefur ekkert unnið eftir 25 deildarleiki. Ríkisstjórnin hefur fylgt tilmælum sérfræðinga frá því að veiran komst á skrið og núna þykjast knattspyrnufélögin allt í einu vita betur.

Allt í einu er bara enginn möguleiki að klára deildarkeppninnar samkvæmt Ajax og þá á bara að slaufa öllu og krýna þá væntanlega meistara! Félög sem reyna að nýta sér ástandið í heiminum í dag get ég ekki sætt mig við. Sérstaklega þegar þeir tala um heilsu fólks sem einhverja ástæðu fyrir því að það eigi að hætta leik,“ bætti stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert