Er Björn of dýr fyrir Molde?

Björn Bergmann Sigurðarson er enn leikmaður Lillestrøm.
Björn Bergmann Sigurðarson er enn leikmaður Lillestrøm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska knattspyrnufélagið Molde segir að ekki sé enn frágengið að Björn Bergmann Sigurðarson komi til félagsins frá Lillestrøm og mögulega reynist hann of dýr fyrir Molde.

Björn Bergmann sagði við Romerikes Blad í gær að hann væri búinn að fá tilboð frá Molde sem hann gæti ekki hafnað. Lillestrøm tilkynnti skömmu síðar á heimasíðu sinni að Björn væri enn leikmaður félagsins, til 31. desember á þessu ári.

Þar var jafnframt sagt að ekkert tilboð hefði enn borist í Björn og Ole Erik Stavrum framkvæmdastjóri Molde staðfestir við VG í dag að málið sé alls ekki í höfn. 

„Það er enn fullsnemmt að segja um það, við eigum í viðræðum við Lillestrøm en það er engin lausn komin í málið. Við ræðum við Lillestrøm um að fá Björn til Molde í læknisskoðun," segir Stavrum við VG sem segir að Björn hafi reynst dýrari en forráðamenn Molde héldu til að byrja með.

„Við höfum átt mjög góðar samræður við Lillestrøm og engin vandamál eru í gangi," segir Stavrum enn fremur.

Simon Mesfin, íþróttastjóri Lillestrøm, staðfesti hins vegar við VG að málið væri ekki einfalt.

„Það er rétt að Molde fékk ekki réttar upplýsingar. Að Björn myndi kosta lítið sem ekkert var ekki rétt. Staðreyndin er sú að það þarf að ræða málin, við  gerðum Molde grein fyrir því og þar stendur málið nú," segir Mesfin við VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert