Hylltur á Camp Nou og beint í einangrun

Ferran Torres í búningi Barcelona á Camp Nou í dag.
Ferran Torres í búningi Barcelona á Camp Nou í dag. AFP

Óhætt er að segja að skipst hafi á skin og skúrir hjá spænska knattspyrnumanninum Ferran Torres í dag.

Hann gekk formlega til liðs við stórveldið Barcelona sem festi kaup á honum rétt fyrir áramótin frá Manchester City fyrir 54,7 milljónir evra, eða um átta milljarða íslenskra króna.

Torres var ekki fyrr búinn að skrifa undir og heilsa upp á stuðningsfólk Börsunga á hinum glæsilega Camp Nou leikvangi í katalónsku borginni en hann fékk niðurstöðu úr skimun fyrir kórónuveirunni og greindist jákvæður.

Hann er því kominn í einangrun og getur ekki byrjað strax að æfa með hinum nýju liðsfélögum sínum. Það breytir þó ekki svo miklu því Torres fær ekki keppnisleyfi með Barcelona fyrr en félagið hefur rýmt til í leikmannahópi sínum og losað sig við einn eða tvo leikmenn af launaskránni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert