Hvergi skemmtilegra að spila handbolta

Arnar Pétursson fórnar höndum í kvöld.
Arnar Pétursson fórnar höndum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Pétursson og lærisveinar hans í ÍBV töpuðu illa gegn Valsmönnum 28:31 í hörkuleik í kvöld. Arnar var eins og gefur að skilja ekki sáttur með úrslitin. ÍBV leiddi leikinn lengi vel og í raun fyrstu 40 mínútur leiksins voru gestirnir einungis einu sinni yfir.

Mætingin í húsið var frábær eins og hún er oftast hjá Eyjamönnum, það var varla sæti laust í stúkunni í kvöld.

„Maður er aldrei sáttur þegar maður tapar en við töpum hérna hörkuleik gegn góðu liði. Ég þarf aðeins að skoða þetta, við þurfum að læra af þessu og bæta okkur.“

Hvað er það helst sem leikmenn ÍBV geta lagað?

„Mér fannst við gefa of mikið eftir í varnarleiknum í seinni hálfleik og þar af leiðandi fáum við ekki markvörslu. Það er hlutur sem við þurfum að skoða, hvar mörkin voru að leka inn,“ sagði Arnar en markverðir ÍBV vörðu virkilega fá skot í seinni hálfleik.

Eyjamenn virtust vera með Valsmennina í fyrri hálfleik en síðan var eins og loftið færi úr blöðrunni þegar tók að líða á fyrri hálfleik.

„Mér fannst við vera algjörlega með þá, mér fannst þeir ekki finna lausnir fyrstu 10-15 mínúturnar. Við vorum værukærir á þeim kafla og ekki að nýta þá yfirburði sem við höfðum á þeim kafla, það er klárlega eitthvað sem við þurfum að laga.“

Eyjamenn fjölmenntu í húsið og var pakkfullt út úr dyrum, það er svona úrslitakeppnisbragur á leikjum ÍBV undir lok deildarinnar.

„Við fáum alltaf fullt af fólki og það er hvergi skemmtilegra að spila handbolta heldur en í Vestmannaeyjum, við erum með bestu stuðningsmennina en við náðum því miður ekki í dag að færa fólkinu það sem það vildi sjá. Við fáum strax á sunnudaginn hörkuleik við FH, toppliðið. Það ætti að gefa okkur eitthvað að vinna þann leik,“ sagði Arnar Pétursson að lokum en ljóst er að hann var mjög leiður með niðurstöðu leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert