Fimmtán ára bið Montpellier á enda

Leikmenn Montpellier fagna sigrinum í Meistaradeild Evrópu í Köln í …
Leikmenn Montpellier fagna sigrinum í Meistaradeild Evrópu í Köln í kvöld. AFP

Montpellier varð í dag Evrópumeistari í handknattleik karla þegar liðið vann Nantes, 32:26, í frábærum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Lanxess-Arena í Köln með sex marka mun, 32:26. Þetta er í annað sinn sem Montpellier vinnur Meistaradeild Evrópu. Liðið stóð einnig uppi sem sigurvegari fyrir fimmtán árum. Þá, eins og nú, var þjálfarinn Patrice Canayer við stjórnvölin.

Einn leikmaður Evrópumeistaraliðsins fyrir 15 árum leikur enn með liðinu og það mjög stórt hlutverk. Það er hornamaðurinn Michael Guigou.

Leikur frönsku liðanna var stórskemmtilegur, hraður og vel leikinn með fullt af glæsilegum tilburðum hjá leikmönnum beggja liða.  Sigur Montpellier var sannarlega sanngjarn þegar upp var staðið. Liðið hafði fleiri ása upp í erminni þegar á leið erfiðan leik, þann annan á jafnmörgum dögum hjá liðunum. Leikurinn var um margt sögulega en þetta er m.a. í fyrsta sinn sem frönsk lið mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem Montpellier og Nantes vinna sér þátttökurétt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar en núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2010.

Sigurlið Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, Montpellier frá Frakklandi.
Sigurlið Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, Montpellier frá Frakklandi. AFP

Fyrir utan allra fyrstu mínútur leiksins var Montpellier sterkara liðið í fyrri hálfleik. Eftir að Montpellier jafnaði metin í 5:5 eftir 10 mínútur tók liðið forystuna og lét hana ekki af hendi það sem eftir var hálfleiksins. Fljótlega var munurinn orðinn þrjú mörk, 10:7. Hann varð mestur fjögur mörk, 15:11. Varnarleikur Montpellier var frábær þar sem Ludovic Fabregas var aðalmaður auk þess sem Vincent Gerard var vel með á nótunum í marki.  Varnarleikur Nantes gekk ekki eins vel í fyrri hálfleik og í viðureigninni við Paris SG í undanúrslitum.

Montpellier var með verðskuldað tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:14, eftir að leikmönnum Nantes tókst að klóra í bakkann á lokamínútunum hálfleiksins. Þeir áttu meira að segja möguleika á að minnka muninn í eitt mark en Gerard varði skot frá línumanninum Nicolas Torunat örfáaum sekúndum áður leiktíminn rann út.

Það tók leikmenn Nantes aðeins fjórar mínútur í síðari hálfleik að jafna metin í 16:16. Norðmaðurinn Esepen Lie Hansen mætti eins og grenjandi ljón til leiks og skoraði öll mörkin. Hann kom ekkert við sögu í fyrri hálfleik og lítið í undanúrslitaleiknum en kom með kraft inn í sóknarleik  Nantes á upphafsmínútum síðari hálfleiks.

Leikmenn Montpellier bitu frá sér á nýjan leik og voru komnir með þriggja marka forskot, 21:17, eftir ríflega 12 mínútur. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var munurinn tvö mörk, 22:20. Nantes jafnaði metin, 24:24, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Montpellier svaraði með fimm mörkum í röð og voru með fimm marka forskot, 29:24, þegar sex mínútur voru til leiksloka. Þar með virtust úrslitin ráðin og voru nánast endanlega staðfest þegar Slóveninn Vid  Kavticnik skoraði 30. mark Montpellier í úr vítakasti tveimur og hálfri mínútu og hinum megin vallarins varði Vincent Gerard skot eftir hraðaupphlaup leikmanna Nantes.

Michael Guigou fyrir miðju varð Evrópumeistari í handknattleik karla í …
Michael Guigou fyrir miðju varð Evrópumeistari í handknattleik karla í annað sinn með Montpellier í dag, 15 árum eftir að hann vann Meistaradeildina með liði félagsins. AFP

Leikmenn Montpellier nánast ærðust af gleði þegar úrslitin lágu fyrir en Patrice Canayer var yfirvegunin uppmáluð þegar hann faðmaði að sér kollega sinn hjá Nantes,Thierry Anti, áður en hann gekk út á gólf keppnishallarinnar í Köln og fagnaði með leikmönnum sínum.

Lud Fabregas og Diego Simone voru markahæstu menn Montpellier-liðsins. Þeir skoruðu sex mörk hvor. Vid Kavticnik og Mohamed Mamdouuh skoruðu fimm mörk hvor. 

Hjá Nantes var Kiril Lazarov markahæstur með sex mörk. Eduardo Gurbindo var næstur með fimm mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert