Veikleikar Nígeríu eru föst leikatriði

Thomas Partey er lykilmaður í liði Gana.
Thomas Partey er lykilmaður í liði Gana. AFP

Ísland og Gana mætast í vináttuleik í knattspyrnu á Laugardalsvelli á morgun og hefst leikurinn klukkan 20. Thomas Partey, miðjumaður Atlético Madrid, er lykilmaður í liði Gana og verður það hlutskipti hans í leiknum á morgun að reyna að stoppa Gylfa Þór Sigurðsson á miðjunni.

Partey sagði á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í kvöld að hann teldi möguleika Íslands á heimsmeistaramótinu í Rússlandi góða. Ísland leikur í D-riðli heimsmeistaramótsins með Argentínu, Króatíu og Nígeríu. Partey þekkir vel til landsliðs Nígeríu og telur að veikleikar þess felist í föstum leikatriðum.

„Öll lið frá Afríku búa yfir miklum hraða og krafti. Hins vegar eiga þau það til að vera óöguð og óskipulögð. Veikleikar afrísku liðanna felast fyrst og fremst í föstum leikatriðum. Þeim gengur oft illa að ráða við hornspyrnur og aukaspyrnur. Íslenska liðið er mjög sterkt í föstum leikatriðum og liðið getur nýtt sér það í Rússlandi í sumar,“ sagði Partey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert