Bjórsala bönnuð í Katar

Skýjaklúfar í Doha, höfuðborg Katars, en allir átta leikvangar HM …
Skýjaklúfar í Doha, höfuðborg Katars, en allir átta leikvangar HM 2022 eru í grennd við hana. AFP/Patricia De Melo Moreira

Yfirvöld í Katar hafa ákveðið að banna bjórsölu með öllu á leikvöngunum átta sem leikir HM 2022 fara fram á. Heimsmeistaramótið hefst eftir aðeins tvo daga.

Eini bjórinn sem verður til sölu á leikvöngunum verður óáfengur. Áfengur bjór verður þó enn í boði í fyrir starfsfólk FIFA og auðuga gesti sem hafast við í lúxus hólfum á leikvöngunum.

The New York Times greinir frá og vitnar í talsmann HM 2022, sem baðst þó undan því að vera nefndur á nafn þar sem hann mætti ekki tala við fjölmiðla og að yfirvöld í Katar væru að undirbúa sína eigin tilkynningu vegna málsins.

Katar er afar íhaldssöm þjóð þegar kemur að neyslu áfengis og stýrir sölu á því með harðri hendi.

Í síðustu viku var greint frá því að fjöldi bjórtjalda yrðu færð á afskekktari staði frá leikvöngunum átta, nokkuð fjarri þeim svæðum þar sem flestir áhorfendur koma til með að safnast saman fyrir leiki.

Í vikunni var einnig opinberað að verðið á þeim áfenga bjór sem verður seldur í Katar hafi hækkað gífurlega.

FIFA ekki lengur við stjórn?

Í grein New York Times er bent á þá athyglisverðu stöðu sem nú er komin upp, sem snýr að því að bjórframleiðandinn Budweiser er stærðarinnar styrktaraðili FIFA með samning að andvirði 75 milljónum Bandaríkjadala.

Í opinberum leiðbeiningum FIFA til stuðningsmanna segir að „miðahafar munu hafa aðgengi að Budweiser, Budweiser Zero og vörum Coca Cola inni á svæðinu við leikvangana“ og að það aðgengi muni vera til staðar í að minnsta kosti þrjár klukkustundir fyrir leiki og eina klukkustund eftir leiki.

Miðað við nýjustu ákvörðun yfirvalda í Katar er ekkert af þessu rétt og virðist því sem FIFA sé ekki við fulla stjórn á mótinu, sem á að vera á vegum sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert