Þorpið kaupir JL húsið

JL-húsið séð úr lofti. Þorpið hefur fest kaup á húsinu …
JL-húsið séð úr lofti. Þorpið hefur fest kaup á húsinu og ætlar að hefja framkvæmdir innan tveggja ára við að breyta því í íbúðahúsnæði. Ljósmynd/Þorpið

Þorpið vistfélag hefur keypt JL húsið sem stendur við Hringbraut 121. Seljendur eru Myndlistarskólinn í Reykjavík og Íslandsbanki, en kaupin eru með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun.

Í tilkynningu frá Þorpinu kemur fram að ætlunin sé að breyta efri hæðum hússins í fjölbreyttar miðborgaríbúðir og segir jafnframt að fyrir því liggi jákvæð afstaða skipulagsfulltrúa. Þá liggi fyrir drög að uppbyggingarsamningi milli Þorpsins og Reykjavíkurborgar um verkefnið.

Gera tillögurnar ráð fyrir að íbúðirnar verði frá um 50 fermetrum að stærð upp í rúmlega 100 fermetra. Einnig er gert ráð fyrir að breyta bílastæðum sunnan við húsið í skjólgott grænt svæði sem mun nýtast bæði íbúum og Vesturbænum í heild. Húsið að garðinum mun stallast upp þannig að allar íbúðir hafa lítinn garð eða pall í suður. Norðan megin hússins er gert ráð fyrir útsýnissvölum.

Húsið var byggt árið 1948 af Vikurfélaginu hf. sem vörugeymsla og skrifstofuhús. Vikurfélagið varð síðar Jón Loftsson hf. sem húsið var síðar kennt við. Arkitekt hússins er Sigmundur Halldórsson og er húsið í síð-funkis stíl. 

Þorpið hefur á undanförnum árum vaxið nokkuð og er stór uppbyggingaraðili á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Hefur félagið í eignarsafni sínu um 1.500 íbúðir í byggingu, hönnun, skipulagi og þróun, eða samtals um 120.000 fermetra ofanjarðar. Stærsta verkefnið er á Ártúnshöfða þar sem félagið á byggingarrétt að um 80 þúsund fermetrum ofanjarðar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við fyrstu 170 íbúðirnar hefjist í vor.

Segir í tilkynningunni að Þorpið horfi nú til þess að vinna samhliða uppbyggingu á Ártúnshöfða að umbreytingarverkefnum á völdum þéttingarreitum miðsvæðis í borginni og að JL húsið sé fyrsta verkefnið að því tagi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við reitinn hefjist innan tveggja ára en að félagið leigi út húsið þangað til.  

Þorpið vist­fé­lag ehf. er í jafn­skiptri eigu Áslaug­ar Guðrún­ar­dótt­ur og einka­hluta­fé­lags­ins 2S, fjár­fest­ing og ráðgjöf en það fé­lag er í 100% eigu Sig­urðar Smára Gylfa­son­ar. Áslaug er eig­in­kona Run­ólfs Ágústs­son­ar sem er titlaður framkvæmdastjóri þróunar. Hann og Sig­urður Smári hafa áður komið að fjár­fest­ing­ar­verk­efn­um í sam­ein­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK