Ólafur Heiðar Jónsson fæddist í Gunnhildargerði í Hróarstungu 25. nóvember 1934. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 22. apríl 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Sigmundsson bóndi frá Gunnhildargerði, f. 25. október 1998, d. 18. maí 1957, og Anna Ólafsdóttir húsfreyja frá Birnufelli, f. 29.ágúst 1902, d. 20. mars 1987.

Börn þeirra voru átta og var Ólafur fimmta barnið í röðinni.

Hin voru í aldursröð: Margrét, f. 30.5. 1927, d. 24.11. 1988, Guðrún Ingibjörg, f. 18.11. 1928, d. 7.9. 2020, Sigmundur Þráinn, f. 5.11. 1930, d. 11.12. 2007, Þórunn Kristbjörg, f. 28.5. 1932, d. 18.4. 2021, Sesselja Hildigunnur, f. 4.11. 1936, d. 23.5. 2023, Soffía Hrafnhildur, f. 15.8. 1939, d. 22.4. 2022, Jóndóra Elísabet, f. 25.5. 1947, d. 3.5. 2007.

Ólafur Heiðar giftist hinn 29. ágúst 1964 Halldóru Hilmarsdóttur frá Fremstagildi í Langadal, f. 21. september 1937. Hún er alin upp af foreldrum sínum, Hilmari A. Frímannssyni bónda og Jóhönnu Birnu Helgadóttur húsfreyju, á Fremstagili.

Börn Ólafs og Halldóru eru: 1) Hilmar, f. 15. júlí 1965, d. 24. júlí 1993. 2) Anna Gunnhildur, f. 7. september 1966, maki Davor Purušić, f. 6. júlí 1966. Dætur þeirra eru Halldóra Ana, f. 1996, og Valgerður Marija, f. 1999. Maki Halldóru Önu er Óttar Jóhannsson, f. 1991. Dætur þeirra eru Snædís Birta, f. 2020, og Selma Björt, f. 2023. 3) Birna, f. 10. maí 1969, maki Hermann Jón Einarsson, f. 28. febrúar 1961. Börn Birnu og Gunnlaugs Ketilssonar, f. 1965, eru Hilmar Már, f. 1997, Margrét Eir, f. 2005, og Steinunn Anna, f. 2007. 4) Jón Heiðar, f. 20. mars 1971, maki Kristín Rósa Ármannsdóttir, f. 27. nóvember 1972. Börn þeirra eru Ólafur Heiðar, f. 2001, Guðjón Ármann, f. 2007, og Anika Jóna, f. 2009.

Ólafur Heiðar fór snemma að aðstoða foreldra sína við búskapinn í Gunnhildargerði. Þegar hann eltist greip hann í ýmsa íhlaupavinnu, starfaði í sláturhúsi, við síldarvinnslu og fór á vertíð í Vestmannaeyjum. Hugurinn stóð þó alltaf til bústarfa og varð hann búfræðingur frá Hólaskóla árið 1954. Örlögin höguðu því þannig til að Ólafur Heiðar varð aldrei bóndi þótt hugurinn leitaði oft til heimahaganna í Hróarstungu.

Eftir að hann settist að í Reykjavík með eiginkonu sinni stundaði hann fjölbreytt og oft á tíðum erfið störf. Lengst af starfaði hann í álverinu í Straumsvík og við Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg.

Ólafur Heiðar var heitur sjálfstæðismaður allt til dauðadags. Meðfram öðrum störfum innheimti hann lengi árgjald fyrir Sjálfstæðisflokkinn í hverfafélögum borgarinnar. Hann var óhemju duglegur og stundaði sjaldnast aðeins eitt starf á hverjum tíma á starfsævi sinni.

Hann gekk mikið og stundaði sund af kappi langt fram eftir ævi. Ólafur Heiðar bjó lengst af í Hlíðahverfinu í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni, flutti síðar í Háaleitishverfi og að endingu í Árskóga 8 í Breiðholti til þess að búa nær eiginkonu sinni Halldóru Hilmarsdóttur. Hún lifir mann sinn og býr í hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, samtengdri byggingu við Árskóga.

Útför Ólafs Heiðars fer fram frá Háteigskirkju í dag, 7. maí 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi og afi hefur kvatt.

Ferðalagið í sumarlandið er hafið. Það verða eflaust fagnaðarfundir þegar þeir Hilmar bróðir og frændi hittast.

Pabbi og afi okkar Ólafur Heiðar var orðinn saddur lífdaga en hafði barist af krafti við ellikerlingu og allt sem henni fylgdi.

Hann bjó með Halldóru Hilmarsdóttur, eiginkonu sinn til næstum 60 ára, þar til í nóvember síðastliðnum. Það var honum erfitt að vera allt í einu orðinn einn en hann flutti í nýja íbúð í desember til að vera nærri eiginkonu sinni sem dvelur nú á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík.

Ólafur Heiðar var frá Gunnhildargerði í Hróarstungu. Þar lærði hann ungur að ganga til allra verka og sýna elju og þrautseigju. Hann kunni vel við sig við bústörfin og sagði okkur oft að hann hefði viljað verða bóndi og hvatti okkur eindregið til að feta þann veg. Pabbi var duglegur, sjálfstæður, eljusamur og þrautseigur, einnig hafði hann ágætis húmor og hafði gaman af börnum. Hann sagði Hilmari Má að hann væri ástæða þess að hann fór að hlaupa meira eftir sextugt, því það var ærið verkefni fyrir afann að fylgja drengnum eftir.

Óhætt er að segja að pabbi hugsaði vel um eigin heilsu og hreyfði sig eftir mætti. Hann synti mörgum sinnum í viku og gekk mikið. Oft fór það í taugarnar á okkur þegar hann lagði bílnum langt frá þeim stað sem við vorum að fara á, þar sem hann taldi að gott væri fyrir okkur öll að ganga svolítið. Hann var einnig duglegur að fara með okkur í sund þegar við vorum lítil. En seinna vann hann í Sundhöll Reykjavíkur.

Pabba datt ýmislegt í hug og var hann þá fylginn sér og hófst handa við verkið alveg sama hvort hann fékk fleiri með sér í lið eða ekki. Hins vegar þegar hann þurfti á aðstoð að halda fann hann leiðirnar og þær voru ýmsar. Til dæmis lofaði hann okkur börnunum kóki þegar þurfti að taka upp kartöflur og þegar við urðum eldri leyfði hann okkur að keyra bílinn.

Hann elskaði sveitina sína og var stoltur af uppruna sinum. Einnig var hann mikill náttúruunnandi og gerði mikið af því að fara í náttúruna með nesti og teppi um helgar. Austur fór hann svo á sumrin og vitjaði ættjarðarinnar í Hróarstungu.

Því miður þurfti pabbi að upplifa missi elsta sonar síns Hilmars. Hann átti afar erfitt með það og jafnaði sig í raun aldrei á því. Þeir feðgar höfðu verið nánir og stundað alls konar bílabrask saman. Hilmar átti vin, Halldór, og hjálpuðu heimsóknir hans til pabba og mömmu á afmælisdögum Hilmars pabba mikið þar sem þeir rifjuðu ýmislegt upp.

Við systkinin sem eftir sitjum ásamt börnum okkar getum rifjað upp margar góðar minningar. Þær síðustu rifjar Hilmar Már upp þegar afinn 89 ára gekk upp á þriðju hæð í fjölbýlishúsi til að líta á íbúð til sölu með honum. Þreyttur eftir tröppuganginn en mjög glaður að sjá íbúðina og spenntur að gera tilboð með Hilmari. Því áhuga fyrir íbúðum hafði hann mikinn. Steinunn rifjar einnig upp þegar hann kom í hesthúsið til hennar til að sjá folald sem hún hafði fest kaup á. Síðasta matarboðið er einnig minnisstætt þegar afi rifjaði upp böllin í sveitinni í gamla daga og þegar hann fór á Reyðarfjörð í fláningu. Afi spurði Margréti og Steinunni reglulega hvort það væru ekki einhverjir myndarlegir piltar í bekknum þeirra. Þetta fannst þeim frekar fyndið og spunnust þá margar skemmtilegar umræður þar sem afi sagði sögur af sveitaböllum þegar hann var upp á sitt besta. Einnig fannst Birnu gaman að hlusta á hann þegar hann var að útskýra lífshlaup sitt fyrir heilbrigðisstarfsfólki sem annaðist hann.

Minningar um pabba og afa munu lifa.

Blessuð sé minning hans og megi hann hvíla í friði.

Birna og fjölskylda.