Varð strax spennt fyrir fæðingunni

Bára O'Brien á von á sínu öðru barni í október.
Bára O'Brien á von á sínu öðru barni í október. Ljósmynd/Aðsend

Bára O'Brien Ragnhildardóttir, móðir og verkefnastjóri, á von á sínu öðru barni í október með eiginmanni sínum Richard O'Brien. Fæðing Ragnhildar Söru sem er fimm ára gekk vel. Þrátt fyrir það ákváðu þau að nýta sér þjónustu Ljáðu mér eyra. Það gerði það að verkum að Bára hefur verið spennt frá fyrsta degi að fæða næsta barn. 

Bára segir að móðurhlutverkið hafi breytt henni á margan hátt. 

„Ég er til dæmis mun meðvitaðri um það eftir að ég varð mamma að ég er fyrirmynd alltaf, alla daga. Alveg frá litlum hlutum eins og að vera alltaf með hjálm á hjóli, hvernig ég tala um líkamann minn eða kem fram við bæði sjálfa mig og aðra. Og alveg yfir í það að það skiptir máli að ég taki þátt í jafnréttisbaráttunni og ryðji brautina fyrir dóttur mína.“

Hvernig hefur meðgangan gengið?

„Meðgangan hefur heilt yfir gengið mjög vel. Ég tók átta vikur í upphafi meðgöngunnar þar sem ég var með mjög mikla sólarhringsógleði og kastaði mikið upp. En það var lán í óláni að það var akkúrat á sama tíma og fyrsta bylgjan af Covid gekk yfir svo ég hafði tækifæri til að vinna heima. Ég gat komið mér vel fyrir með tölvuna í fanginu og svo var stutt að hlaupa þegar ég þurfti að kasta upp.“

Þrátt fyrir að Bára sé að ganga með sitt annað barn er ekki þar með sagt að hún hafi gengið í gegnum þetta allt áður. Oft segja konur að hver meðganga sé einstök og hefði hún sjálf ekki getað ímyndað sér hversu satt það er fyrr en hún upplifði það sjálf. 

„Þrátt fyrir langt ógleðitímabil í upphafi þá hefur mér heilt yfir liðið alveg ótrúlega vel þessa meðgöngu og ég hef getað notið þess og jafnvel gleymt því alveg að ég sé ólétt. Eitthvað sem ég upplifði aldrei á síðustu meðgöngu, þá fannst mér allt erfitt og ómögulegt og náði aldrei að njóta mín.“

Hvernig hugsar þú um heilsuna á meðgöngunni?

„Ég hef aldrei verið þessi ræktartýpa en hugsa mjög markvisst og skipulega um andlegu heilsuna mína, bæði á meðgöngunni og líka alla jafna síðastliðin tíu ár. Að mínu mati er alltaf rými til að þroskast og dýpka andlegu hliðina og ég hef fundið mína leið í því og stunda andlega rækt eins og margir stunda líkamsrækt. Stöðug sjálfsskoðun býður upp á svo mörg tækifæri til að þroskast í lífinu og ég hef fundið svo góða leið til að koma auga á þessi tækifæri og nýta þau.“

Er viðhorf þitt til fæðingarinnar eða til fyrstu viknanna með ungbarn eitthvað öðruvísi núna en í fyrsta skiptið? 

„Ég er mun afslappaðri fyrir öllu því ég veit aðeins út í hvað ég er að fara núna. Mér finnst svolítið skrítið að hugsa til þess að ég fái kannski barn sem er mjög ólíkt dóttur minni, svo það sem virkaði með hana virkar kannski ekki með þetta barn.

Það sem hræðir mig við þetta ferli er að vera að fara að ganga í gegnum fæðingu og vera með ungbarn í þriðju bylgju Covid og óvissunni sem fylgir því ástandi. Ég er að reyna að halda mig sem mest heima núna í aðdraganda fæðingarinnar. Maðurinn minn vinnur líka heiman frá til að minnka líkurnar á smiti og sóttkví og að við fáum að upplifa fæðinguna saman. Að mínu mati er fæðingin ekki einnar konu verk og mjög mikilvægt að hitt foreldrið fái að upplifa hana líka og vera stuðningur.“

Hjónin Richard og Bára fóru yfir fæðingarskýrslu Ragnhildar Söru eftir …
Hjónin Richard og Bára fóru yfir fæðingarskýrslu Ragnhildar Söru eftir að hún fæddist. Hún hvetur aðra foreldra að gera slíkt hið saman þó svo að allt hafi gengið vel. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var fæðingin? 

„Ég átti ótrúlega góða upplifun af síðustu fæðingu, hún gekk bæði hratt og vel fyrir sig og ég hefði í rauninni verið tilbúin að fæða næsta barn strax daginn eftir. Við höfðum bæði nokkrar spurningar eftir fæðinguna þrátt fyrir að upplifunin hefði verið góð og pöntuðum okkur tíma hjá Ljáðu mér eyra þegar Ragnhildur Sara var þriggja mánaða. Þar hittum við ljósmóðurina sem tók á móti henni og við fórum saman í gegnum fæðingarskýrsluna og við fengum svör við öllum okkar spurningum. Klárlega þjónusta sem ég vil hvetja alla til að nýta sér, hvort sem upplifunin af fæðingunni sé góð eða slæm. Með þessa fæðingarreynslu hef ég hlakkað til komandi fæðingar síðan ég fékk jákvætt þungunarpróf á þessari meðgöngu.“

Hefur þú nýtt þér bumbuhópa eða mömmuklúbba?

„Ég er skráð í Facebook mömmuhópa og hef mjög gaman að því að fylgjast með umræðunni og lesa mig til, sérstaklega á meðgöngunni þegar það eru margar að upplifa það sama og ég, en ég tek lítinn þátt í umræðunni sjálf. Þegar Ragnhildur Sara var lítil vorum við nokkrar mömmur sem áttum börn með stuttu millibili og þekktum aðeins til hvor annarrar sem bjuggum til smá mömmuhóp og hittumst næstum vikulega, það var algjört æði. Klárlega eitthvað sem ég myndi vilja endurtaka.“

Hin fimm ára gamla Ragnhildur Sara verður stóra systir fljótlega.
Hin fimm ára gamla Ragnhildur Sara verður stóra systir fljótlega. Ljósmynd/Aðsend

Eru þið að gera eitthvað sérstakt til að undirbúa komu barnsins?

„Undirbúningurinn fyrir þetta barn hefur verið mjög fyrirferðarlítill og afslappaður. Við vorum samt að útbúa barnaherbergi núna á endasprettinum og ég er dugleg að sýna frá því ferli á instagramminu mínu. 

Aðalundirbúningurinn hefur verið að hlúa að eldri stelpunni okkar og vera til staðar fyrir hana, hún er fimm ára og búin að hafa okkur foreldrana út af fyrir sig í fimm ár. Ég hef dottið niður á allskyns áhugaverð hlaðvörp sem gefa mér hugmyndir um hvernig ég get verið til staðar fyrir hana í gegnum þessar stóru breytingar sem felast í því að verða stóra systir.“

View this post on Instagram

Bumba í hreiðurgerð 🦢

A post shared by Bára O'Brien Ragnhildard. (@bara_87) on Sep 14, 2020 at 9:52am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert