Hopar fjórfalt hraðar en áður var talið

Ísinn á Grænlandi hefur hopað umtalsvert undanfarin ár. Mynd úr …
Ísinn á Grænlandi hefur hopað umtalsvert undanfarin ár. Mynd úr safni. mbl.is/Rax

Ísinn á Grænlandi hefur hopað fjórfalt hraðar frá 2003 en áður var talið, samkvæmt nýrri rannsókn sem Guardian fjallar um. Er það ekki hvað síst ástandið á suðvesturhluta Grænlands, svæði sem lítil hætta hefur þótt stafa af hingað til, sem nú vekur vísindamönnum áhyggjur. 

Niðurstöðurnar voru birtar í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Telja vísindamennirnir þær sýna að landsvæði á Grænlandi, sem menn höfðu áður litlar áhyggjur af, kunni að eiga umtalsverðan þátt í hækkun yfirborð sjávar í framtíðinni og auka þannig á þá ógn sem viðkvæmum strandsvæðum á borð við Miami í Flórída, Sjanghæ í Kína, Bangladess og ýmsum eyjum á Kyrrahafinu stafi af hækkandi sjávarstöðu.

Íshellan minnkar hraðast á suðvesturhluta Grænlands

BBC fjallar einnig um niðurstöðuna og segir rannsóknir vísindamannanna lengi vel hafa beinst að suðaustur- og norðvesturhluta Grænlands, en þar falla reglulega stórir borgarísjakar úr Grænlandsjökli í Atlantshafið.

Rannsóknin nú hafi hins vegar sýnt að það sé á suðvesturhluta Grænlands sem íshettan hafi minnkaði hvað mest á árabilinu 2003-2013, þrátt fyrir að lítið sé um jökla á þessum slóðum.

„Hvað sem olli þessu er ekki hægt að útskýra það út frá jöklum af því að þeir eru ekki margir,“ hefur BBC eftir einum skýrsluhöfundanna Michael Bevis frá Ohio State University. „Þetta hlýtur vera yfirborðsmassinn. Bráðnun íssins kom innan úr landi og í átt að strandlengjunni.“

BBC segir vísindamenn telja að hop íssins megi rekja til loftslagsbreytinga annars vegar og veðursveiflu í Norður-Atlantshafinu hins vegar, svonefndrar NAO-sveiflu. Á neikvæðum tímabilum yfir sumartímann eykur NAO hitann á svæðinu og fjölgar þar með þeim geislum sólar sem ná yfirborði jarðar, sem aftur dregur úr snjókomu — ekki hvað síst á vesturhluta Grænlands.

Stórar ísbreiður munu bráðna í meiri mæli

„Þessar sveiflur eru búnar að eiga sér stað lengi [...] og hvers vegna er það því fyrst nú sem þær eru að valda þessari miklu bráðnun? Því veldur það að grunnlína hitastigs andrúmsloftsins er hærri. Þessi skammtímahlýnun sem NAO veldur siglir nú á bylgju varanlegrar hlýnunar jarðar,“ sagði Bevis.

„Við vissum að við værum að glíma við umfangsmikinn vanda varðandi hop sumra stóru jöklanna,“ bætti hann við. „Nú erum við hins vegar að átta okkur á öðrum alvarlegum vanda: Stórar ísbreiður munu í sívaxandi mæli bráðna og falla til sjávar eftir árfarvegum.“

GPS-kerfi eru notuð til að fylgjast með jöðrum flestra jökla á Grænlandi, en lítið hefur verið um slík mælikerfi á suðvesturhluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert