„Sennilega besta svar sem ég hef heyrt“

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, segir að hann væri ekki á leiðtogafundinum í Hanoi með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, ef hann væri ekki reiðubúinn til þess að afkjarnorkuvæðast. „Þetta er sennilega besta svar sem þið hafið heyrt,“ sagði Trump við blaðamenn eftir að Kim lét þessi orð falla á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í Víetnam. 

Þegar blaðamenn spurðu Kim hvort hann væri reiðubúinn til þess að taka afdráttarlaus skref í þá átt sagði hann þá vera ræða það núna. 

Kim Jong-un ýjaði að því að Bandaríkjamenn kæmu upp ræðismannsskrifstofu til frambúðar í höfuðborg Norður-Kóreu, Pyongyang, og Trump segir að engin ástæða sé til þess að hraða samkomulagi um kjarnorkuvopnaframleiðslu N-Kóreu. Ef ræðismannsskrifstofa yrði opnuð í N-Kóreu hefði það mikil áhrif til hins betra varðandi samband ríkjanna tveggja. Trump segir að ef af verður yrði það frábært framtak. 

Leiðtogarnir hittust í annað skipti á átta mánuðum í gær og segja sérfræðingar að þeir verði að komast að einhverri áþreifanlegri niðurstöðu varðandi kjarnorkuvopnaframleiðslu Norður-Kóreu áður en lengra er haldið. Að öðrum kosti þá sé ekki hægt að telja fundina annað en sýndarmennsku.

Tekið hefur verið eftir því hversu afslappaður Kim er á fundum með blaðamönnum nú í Hanoi ólíkt því sem var þegar hann var í fyrsta skipti spurður spurninga af erlendum blaðamönnum árið 2013. Þá varð honum orða vant og svaraði aldrei spurningunni sem lögð var fyrir hann. Nú er annað upp á teningnum. Blaðamaður Washington Post spurði Kim hvort hann hefði trú á því að hann gæti náð samkomulagi við Trump.

Kim hallaði sér aftur á bak til þess að hlýða á hvísl þýðandans og svaraði svo. „Það er enn of snemmt að segja til um það núna. En ég myndi ekki segja að ég væri svartsýnn. Miðað við líðan mína núna hef ég það á tilfinningunni að niðurstaðan verði góð,“ sagði Kim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert