Hótuðu að skjóta ólétta konu

Aðgerðir lögreglunnar voru harkalegar.
Aðgerðir lögreglunnar voru harkalegar. Mynd/Skjáskot af Twitter

Borgarstjóri Phoenix í Arizona hefur beðist afsökunar eftir að myndband birtist af lögreglumönnum í borginni handtaka með miklum látum svarta fjölskyldu eftir að dóttirin hafði tekið dúkku með sér úr verslun án þess að borgað hefði verið fyrir hana.

Myndbandið, sem var tekið af sjónarvotti, var tekið í síðasta mánuði. Lögreglan notaði blótsyrði og öskraði á fjölskylduna að fara út úr bílnum og hótaði að skjóta hana.

Síðar stígur ófrísk kona út úr bílnum með tvö ung börn. Hún lætur manneskju við hliðina á sér hafa barnið áður en hún er handtekin.


„Ég eins og margir aðrir er með ónotatilfinningu vegna þess sem sést í myndbandinu með lögreglunni frá Phoenix og fjölskyldu með ung börn,“ sagði Kate Gallego í yfirlýsingu á Twitter.

Hún sagði hegðun lögreglunnar „óviðeigandi“ og „algjörlega ófagmannlega“. „Hegðun sem þessi er ekki réttlætanleg við neinar kringumstæður,“ sagði hún.

„Mér þykir miður að fjölskyldan hafi þurft að ganga í gegnum þetta og ég bið samfélag okkar afsökunar.“

Að sögn yfirmanns lögreglunnar í Phoenix, Jeri Williams, voru lögreglumennirnir að bregðast við tilkynningu um búðarhnupl. „Í hvert sinn sem ég horfi á myndbandið líður mér illa. Svona eiga okkar starfsmenn ekki að hegða sér,“ sagði Williams.

Höfðar skaðabótamál

Fjölskyldan hefur höfðað skaðabótamál gegn borginni og krefst 10 milljóna dollara, eða tæplega 1,3 milljarða króna, í skaðabætur og segir að brotið hafi verið á mannréttindum hennar.

Að því er segir í dómsskjölum höfðu Dravon Ames, unnusta hans Lesha Harper og tvær dætur þeirra, eins og tveggja ára, verið að versla í Family Dollar-versluninni. 

Fjögurra ára dóttir þeirra, Island, tók dúkku úr versluninni án þess að foreldrar hennar vissu af því og áttuðu þau sig ekki á því fyrr en þegar þau voru komin út í bíl. 

Þau óku þá að íbúð barnfóstru sinnar þegar lögreglubíll stöðvaði þau og lögreglumaður birtist með byssu á lofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert