Náðu út njósnara eftir að Trump deildi upplýsingum með Rússum

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sergei Kislyak, …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sergei Kislyak, sendiherra Rússa, á fundinum í Hvíta húsinu. Þar sýndi Trump þeim leynileg gögn. AFP

Bandarísk yfirvöld náðu hátt settum njósnara út úr Rússlandi árið 2017. Bandaríska CNN-sjónvarpsstöðin segir þetta koma fram í skýrslu þar sem fram kemur að fjöldi manna í stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi haft beina vitneskju um aðgerðina.

CNN segir þessa ákvörðun hafa verið tekna fljótlega eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti deildi, öllum að óvörum, leynilegum gögnum bandarískra leyniþjónustustofnana með rússneskum embættismönnum.

Fram kemur í skýrslunni að enginn annar njósnari Bandaríkjanna í Rússlandi hafi haft viðlíka aðgengi að upplýsingum um rússnesk stjórnvöld. Segja bæði CNN og New York Times hann hafa verið í útjaðri innsta hrings Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og hann hafi haft reglulegt aðgengi að forsetanum og jafnvel náð að mynda skjöl sem voru á skrifborði Pútíns.

Upplýsingarnar innsiglaðar sérstaklega fyrir Obama

Er njósnarinn sagður hafa njósnað fyrir Bandaríkin í meira en áratug, á sama tíma og hann hækkaði í tign innan rússneska stjórnkerfisins. Segir New York Times njósnarann m.a. hafa átt stóran þátt í því að bandarískar njósnastofnanir komust að þeirri niðurstöðu að Pútín hefði persónulega fyrirskipað afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Voru upplýsingar um njósnarann svo viðkvæmar að John Brennan, þáverandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, útbjó sérstakar innsiglaðar skrár fyrir Barak Obama í forsetatíð hans frekar en láta þær fylgja með hefðbundnu yfirliti til forsetans.

CIA er sagt hafa reynt fyrst að koma njósnaranum frá Rússlandi eftir fund Trumps með þeim Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands og Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Greint hefur verið frá því áður að Trump hafi deilt leynilegum upplýsingum með þeim á fundinum sem gætu hafa svipt hulunni af heimildamönnum Bandaríkjanna.

Embættismenn sem viðstaddir voru fundinn áttuðu sig á mistökum forsetans og flýttu sér að láta CIA og aðrar leyniþjónustustofnanir vita.

Rússneski njósnarinn neitaði hins vegar í fyrstu að yfirgefa landið og vísaði til þess að hann hefði áhyggjur af fjölskyldu sinni. Þegar reynt var aftur nokkrum mánuðum síðan samþykkti hann það hins vegar.

BBC segir miklar vangaveltur nú uppi um hver njósnarinn hafi verið og er rússneska dagblaðið Kommersant sagt hafa nafngreint mann sem vann á forsetaskrifstofu Pútíns, áður en hann flutti til Virginíu í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni er því hins vegar neitað að maðurinn hafi starfað þar.

Nafn njósnarans er þó líklega vel varið leyndarmál, segir BBC og minnir á að rússneskir leyniþjónustumenn hafi gert sér ferð til Bretlands í fyrra til að reyna að myrða fyrrverandi gagnnjósnararann Sergei Skripal og þá hafi fyrrverandi njósnarinn Alexander Litvinenko verið myrtur í London árið 2006 er geislavirku efni var laumað í te sem hann drakk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert