Salvini á yfir höfði sér 15 ára dóm

Formaður Lega, Matteo Salvini.
Formaður Lega, Matteo Salvini. AFP

Efri deild ítalska þingsins mun í dag greiða atkvæði um hvort Matteo Salvini, fyrrverandi innanríkisráðherra og formaður þjóðern­is­flokksins Banda­lag­sins, verði sóttur til saka fyrir að hafa brotið lög með því að neita flóttafólki um að koma að landi. Hann á yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

Dómstóll á Sikiley hefur mælt með því að Salvini, sem var einnig varaforsætisráðherra Ítalíu á þessum tíma, verði sóttur til saka fyrir að koma í veg fyrir að strandgæslan gæti komið með fólkið að landi í júlí í fyrra. Samkvæmt ítölskum lögum er ekki hægt að sækja ráðherra til saka fyrir eitthvað sem þeir gerðu á meðan þeir gegndu embætti ráðherra nema sérstök þingnefnd gefi heimild fyrir því. 

Þingnefndin greiddi atkvæði með því í janúar að svipta Salvini friðhelgi og nú er lokaákvörðunin í höndum öldungadeildarinnar. Einfaldan meirihluta þarf til þess að svo verði en alls sitja 319 þingmenn í efri deildinni. Von er á niðurstöðunni fyrir klukkan 18 í dag. 

Salvini neitaði að heimila 116 flóttamönnum, sem hafði verið bjargað úr sjávarháska af áhöfn Gregoretti, um að koma að landi fyrr en búið væri að semja við önnur ríki Evrópusambandsins um að taka við flóttafólkinu. Þetta þýddi að strandgæslubáturinn þurfti að bíða á hafi úti með flóttafólkið í tæpa viku og voru aðstæður afar slæmar um borð.

Dómstóll í Catania sakaði Salvini um að misnota vald sitt með því að halda fólkinu ólöglega í varðhaldi um borð frá 27. til 31. júlí 2019. Salvini heldur því fram að hann hafi ekki staðið einn á bak við ákvörðunina og að ríkisstjórnin, með Giuseppe Conte forsætisráðherra fremstan í flokki, hafi stutt ákvörðun hans. Saksóknarar á Sikiley hófu í kjölfarið rannsókn á aðstæðum um borð í bátnum en þar deildu flóttamennirnir 116 meðal annars einu salerni. 

Áhöfn Gregoretti bjargaði 140 flóttamönnum um borð 25. júlí en fólkið var að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu til Evrópu. Þennan sama dag drukknuðu 110 flóttamenn fyrir utan strönd Líbýu. Hluti hópsins, það er þeir sem voru í brýnni þörf fyrir læknisaðstoð, var fluttur um borð í skip strandgæslunnar en öðrum, alls 116 flóttamönnum, var haldið í bátnum í tæpa viku.

Stefna Salvini um að loka höfnum fyrir flóttafólki sem miðaði að því að reyna að koma í veg fyrir komu flóttafólks til landsins jók mjög á vinsældir hans á Ítalíu. En Ítalir hafa löngum kvartað yfir því að önnur ríki Evrópu taki lítinn þátt í því að taka á móti flóttafólki sem kemur til álfunnar.

Samkvæmt stjórnarskrá Ítalíu getur þingið komið í veg fyrir að mál gegn ráðherra fari sína leið í dómskerfinu ef þingmenn telja að viðkomandi ráðherra hafi brugðist við með þjóðarhag í huga.

Innanríkisráðherra hefur heimild til að takmarka eða banna flutninga skipa um ítalska landhelgi ef almannaheill liggur við nema í einstaka tilvikum. Savini hefur ítrekað sagt að hann vilji að málið fari fyrir dóm og flestir flokkar eru á sama máli og að greidd verði atkvæði þar um. 

„Ég get ekki beðið eftir því að koma fyrir dóm og horfa í augu dómarans. Útskýra fyrir honum að það hafi verið réttur minn og skylda — ekki glæpur — að verja landamæri lands míns,“ segir Salvini. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert