Óbólusettum sniðinn þrengri stakkur

Ítali með þjóðlega grímu gengur um götur Rómarborgar. Þar í …
Ítali með þjóðlega grímu gengur um götur Rómarborgar. Þar í landi hafa hertar reglur tekið gildi um óbólusetta. AFP

Ítalir sem ekki hafa þegið bólusetningu gegn kórónuveirunni mega nú ekki setjast til borðs á veitingastöðum og ekki fara í innanlandsflug. Hertar reglur um óbólusetta tóku gildi í dag og skólar voru sömuleiðis opnaðir.

Aðeins þeir óbólusettu sem nýlega hafa lokið einangrun vegna smits eru undanþegir nýjum reglum. Smitum fer fjölgandi í Ítalíu og er hertum reglum ætlað að koma böndum á bylgjuna.

Óánægja með opnun skóla

Skólar voru opnaðir á ný víðs vegar um Ítalíu í dag eins og áður sagði, þvert á tilmæli skólastjóra, stéttarfélags lækna og bæjarstjórna um land allt sem vildu halda skólum lokuðum í minnst tvær vikur til viðbótar.

Ítalskir fréttamiðlar segja að þó verði skólar í um þúsund bæjum enn lokaðir. Um 86% barna yfir 12 ára aldri hafa verið bólusett og börnum yngri en 12 ára hefur þegar verið boðin bólusetning.

Massimo Galli, einn virtasti veirufræðingur Ítalíu, segir að opnun skólanna sé óréttlætanleg ákvörðun og Walter Riccardi, sérfræðingur á sviði heilbrigðismála, segir stöðuna eldfima.

Ítalía var það land í Evrópu sem fyrst fann fyrir skaðsemi veirunnar snemma árs 2020 og er fjöldi látinna þar í landi einn sá mesti í álfunni, um 140 þúsund manns það sem af er faraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert