Vilja að norsk lögregla beri vopn

Meirihluti nefndar um valdbeitingartæki lögreglu telur eðlilegt að norsk lögregla …
Meirihluti nefndar um valdbeitingartæki lögreglu telur eðlilegt að norsk lögregla gangi vopnuð að skyldustörfum sínum dags daglega. Lögregla hefur borið vopn samtals rúmlega 800 daga frá því í árslok 2014 og hefur nú borið vopn frá árás Zaniar Matapours í Ósló 25. júní. AFP

Meirihluti klofinnar nefndar sérfræðinga um notkun norskrar lögreglu á valdbeitingartækjum leggur til við Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra að lögregla landsins beri vopn við skyldustörf.

Kom þetta fram á blaðamannafundi Pål Arild Lagestad nefndarformanns í gær í kjölfar þess er nefndin lagði hugleiðingar sínar á borðið í formi 241 blaðsíðu langrar skýrslu um vopnaburð lögreglu.

Lagestad, sem er prófessor í kennslufræði við Nord-háskólann, sagði á fundinum að meirihluti nefndarinnar byggði álit sitt á því, að núgildandi verklagsreglur um vopnaburð lögreglu samræmdust ekki því ógnarstigi sem lagt væri til grundvallar í forsendum nefndarinnar. Fimm af átta nefndarmönnum mynduðu meirihlutann en nefndin var, auk formannsins, skipuð lögmanni, lækni, sérfræðingi í áfallastreitu og fjórum yfirmönnum lögreglu.

Ítrekuð umræða í samfélaginu

Minnihlutinn taldi hins vegar affarasælast að halda því verklagi sem nú tíðkast, það er að segja að lögregla geymi skotvopn í læstum hirslum í lögreglubifreiðum og grípi til þeirra er háski steðjar að. Er álit minnihlutans í samræmi við það álit sem sambærileg nefnd skilaði af sér við síðasta mat, árið 2017.

Á þeim fimm árum sem síðan eru liðin hefur landslag norskrar löggæslu breyst töluvert og margir atburðir orðið til þess að lögreglu hefur verið gert að ganga með skotvopn um tíma í kjölfar voðaverka. Gengur lögregla til dæmis enn með skotvopn í kjölfar árásar hins norsk-íranska Zaniar Matapours í miðbæ Óslóar aðfaranótt 25. júní þar sem tveir létust og 21 særðist. Framlengdi Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóri vopnaburðartímabilið um átta vikur 20. október.

„Ítrekað kemur upp umræða í samfélaginu um valdbeitingartæki lögreglu og beitingu þeirra. Mér sýnist þörf á að uppfæra þekkingu okkar á því sviði,“ sagði Mehl dómsmálaráðherra þegar hún skipaði valdbeitingarnefndina í febrúar. Kveðst ráðherra hafa kynnt sér skýrsluna sem út kom í gær og ríkisstjórnin hafi ákveðið að halda sig við núgildandi fyrirkomulag enn um sinn þrátt fyrir niðurstöðu meirihlutans.

Leggur tillögu fyrir Stórþingið

„Nú höfum við fengið nákvæma og ítarlega skýrslu sem fjallar um öll valdbeitingartæki lögreglu og það er mikilvægt að við setjum okkur vel inn í efni hennar. Að því loknu munum við snúa okkur á ný að spurningunni um vopnaburð lögreglu,“ segir ráðherra við norska ríkisútvarpið NRK.

Per-Willy Amundsen, þingmaður Framfaraflokksins, hefur lengi verið talsmaður þess að lögregla beri skotvopn við skyldustörf. Kveðst hann munu leggja fyrir Stórþingið tillögu þess efnis að lögregla beri skotvopn áður en átta vikna framlengingartímabili ríkislögreglustjóra lýkur 1. desember. Ekki hefur þó verið meirihluti fyrir vopnaburði lögreglu á þinginu fram að þessu.

Marius Dietrichson er formaður verjendadeildar norska lögmannafélagsins og einn þeirra þriggja nefndarmanna sem skipa minnihluta valdbeitingarnefndarinnar og vilja halda núverandi fyrirkomulagi.

„Út á við kemur lögreglan fram óvopnuð en vopnin eru innan seilingar og til þeirra má grípa við knýjandi nauðsyn. Það fyrirkomulag hefur reynst vel,“ segir Dietrichson og bætir því við að ekkert hafi breyst síðan 2017 sem kalli á að lögregla gangi með vopn öllum stundum.

Með vopnum 436 daga samfleytt

Það var árið 2014 sem norsk lögregla gekk í fyrsta sinn vopnuð um allt land en samkvæmt samantekt lögreglunnar sem birtist á síðunni Politiforum hefur lögregla frá 25. nóvember 2014 til dagsins í dag, átta ára tímabil, samtals borið vopn í rúmlega 800 daga sem gera yfir tvö ár í samanlögðu.

Var lengsta vopnaburðartímabilið þar 436 dagar, frá 25. nóvember 2014 til 3. febrúar 2016, vegna hækkaðs ógnarstigs í landinu að mati öryggislögreglunnar PST, það næstlengsta 208 dagar af sömu ástæðu og það þriðja lengsta stendur nú yfir, vopnaburður lögreglu frá atlögu Matapours 25. júní.

NRK

NRKII (lögregla oftar vopnuð)

Dagbladet

TV2

Politiforum (vopnaburðartímabil frá 2014)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert