Yfir 100 eldflaugum skotið á Úkraínu

Eldur í Kænugarði eftir drónaárás sem var gerð á borgina …
Eldur í Kænugarði eftir drónaárás sem var gerð á borgina fyrr í mánuðinum. AFP/Sergei Supinskí

Rússar gerðu umfangsmiklar eldflaugaárásir á Úkraínu í morgun, þar á meðal á höfuðborgina Kænugarð, að sögn úkraínska hersins.

„29. desember. Stór eldflaugaárás...Óvinurinn ræðst á Úkraínu úr ýmsum áttum bæði með eldflaugum úr lofti og frá hafi úti með flugvélum og skipum,“ sagði úkraínski flugherinn á samfélagsmiðlum.

Að sögn Oleksí Arestovyh, ráðgjafa Úkraínuforseta, var yfir 100 eldflaugum skotið á úkraínskar borgir í „þó nokkrum bylgjum“, að því er BBC greinir frá.

Að minnsta kosti tvær sprengingar heyrðust í Kænugarði.

Rússar hafa fjölgað loftárásum sínum á Úkraínu að undanförnu, annað hvort með eldflaugum eða drónum, og beint sjónum sínum að orkuinnviðum.

Rafmagnslaust í Lviv

90% borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu eru án rafmagns eftir árásirnar, að sögn borgarstjórans Andrí Sadoviy.

Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, hefur einnig varað við mögulegu rafmagnsleysi í kjölfar árásanna. Hann hvatti borgarbúa til að birgja sig upp af vatni.

Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, 19. desember við tendrun jólatrés.
Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, 19. desember við tendrun jólatrés. AFP/Sergei Supinskí

Brot úr eldflaugum sem höfðu verið skotnar niður lentu á tveimur húsum í einkaeigu í austurhluta Kænugarðs.

Uppfært kl. 8.20:

Að minnsta kosti þrír eru særðir í Kænugarði af völdum loftárásanna.

„Eins og staðan er núna eru þrír særðir í Kænugarði, þar á meðal fjórtán ára stúlka. Þau eru öll á sjúkrahúsi,“ sagði Klitschko á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert