„Hræðilegasti staðurinn á jörðinni“

Hörð átök hafa verið í Bakmút undanfarna mánuði. Óskar Hallgrímsson …
Hörð átök hafa verið í Bakmút undanfarna mánuði. Óskar Hallgrímsson er nú á leiðinni þangað með hópi blaðamanna. AFP/Ai-Doumy

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði, vaknaði í nótt þegar loftvarnarflautur ómuðu um borgina á ný er Rússar gerðu árás á Kænugarð fjórðu nóttina í röð.

Hann segir ánægjulegt að engar fregnir hafi borist um mannfall enda sé höfuðborgin vel varin fyrir loftárásum. Þrátt fyrir það sé þó ávallt hætta á að brak úr flugskeytum og drónum falli niður á jörðu og slasi fólk.

Vakna frekar við sprengingar en loftvarnaflautur

„Yfirleitt vöknum við frekar við sprengingarnar frekar en þessar bjöllur því maður er orðinn svo vanur þeim. Þær eru ekkert sérstaklega háværar heima hjá okkur en sumir búa við hliðina á þessu, það er misjafnt hvar maður er í borginni,“ segir Óskar þegar blaðamaður spyr hvort að íbúar ranki ávallt við sér þegar loftvarnarflautur fara í gang að næturlagi.

„Yfirleitt vaknar maður bara og fer aftur að sofa en núna út af þessum stóru árásum sem hafa verið að gerast þá get ég ekki hunsað þær. Þannig að maður er að vaka og fylgjast með á meðan hættan er bara í gangi.“

Lagði af stað snemma í morgun

Svefninn í nótt hefði verið kærkominn en Óskar er nú á leiðinni til Bakmút í Donbass-héraði  með hópi blaðamanna. 

„Ég þurfti að vakna klukkan sjö og ég var vakandi frá eitt til fjögur. Þannig að maður er að keyra núna á þriggja tíma svefni. Þetta er að trufla mann í lífinu en þannig er stríð.

Ég er að fara til Bakmút sem er örugglega hræðilegasti staðurinn á jörðinni núna gæti ég trúað, þar sem að harðir bardagar eru búnir að geysa í fjóra mánuði og munu halda áfram. Við verðum þar núna í viku að vinna að því að fjalla um hvað er búið að gerast þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert