Forseti Úganda samþykkir lög gegn samkynhneigð

Yoweri Museveni, forseti Úganda.
Yoweri Museveni, forseti Úganda. AFP

Yoweri Museveni, forseti Úganda, hefur samþykkt ströng lög gegn samkynhneigð þar í landi.

Lögin voru samþykkt á þingi landsins fyrr á árinu. Museveni hefur nú undirritað frumvarpið og verða þau þar með að lögum gegn samkynhneigð 2023, að því er fram kemur í yfirlýsingu forsetaembættisins.

Forsetinn hafði hvatt þingmenn til að endurvinna frumvarpið, þó að flestum ströngum ákvæðum sem ollu uppnámi á Vesturlöndum hafi verið haldið eftir.

Samkvæmt hinni breyttu útgáfu er ekki refsivert fyrir fólk að skilgreina sig sem samkynhneigt, en það að „taka þátt í samkynhneigðu athæfi“ geti varðað lífstíðarfangelsi.

Þá geti fólk átt yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir endurteknar athafnir, en Úganda hefur ekki gripið til dauðarefsingar í mörg ár.

Tuttugu ár fyrir að stuðla að samkynhneigð

Fyrri útgáfa löggjafarinnar krafðist þess að Úgandamenn skyldu tilkynna hinsegin fólk til lögreglu eða eiga yfir höfði sér sex mánaða fangelsi. Ákvæðið var afnumið eftir að Museveni sagði það geta skapað árekstra í samfélaginu.

Samkvæmt nýju lögunum eiga allir sem „stuðla að samkynhneigð af ásettu ráði“ yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi. Þá gætu samtök sem hvetja til samkynhneigðs athæfis átt yfir höfði sér tíu ára bann.

Evrópusambandið, Bandaríkin og alþjóðleg mannréttindasamtök hafa fordæmt frumvarpið og hefur Volker Turk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, lýst því sem „líklega með því versta sinnar tegundar í heiminum“.

Löggjöfin nýtur hins vegar víðtæks stuðnings á meðal almennings í Úganda, en stuðningsmenn segja hana auðvelda yfirvöldum að berjast gegn hinsegin athæfi sem stríði gegn hefðbundnum og trúarlegum gildum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert