Árásargjarnir háhyrningar hafi lært af Gladis

Háhyrningurinn Gladis er talin hafa miðlað reynslu sinni til yngri …
Háhyrningurinn Gladis er talin hafa miðlað reynslu sinni til yngri háhyrninga. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Vísindamenn eru undrandi á hegðun háhyrninga við Spánar-, Gíbraltar- og Portúgalsstrendur, þar sem árásum þeirra á smábáta og snekkjur hefur farið ört fjölgandi síðan í maí árið 2020. Að minnsta kosti tvisvar hefur þeim tekist að sökkva bátum á svæðinu.

Hópur vísindamanna telur að háhyrningurinn og ættmóðirin Gladis, sem heldur til við Gíbraltarstrendur, hafi lent í áfalli og í kjölfarið kennt yngri háhyrningum að sökkva bátum. Á meðal þeirra er líffræðingurinn Alfredo López Fernandez, við Háskólann í Aveiro í Portúgal. 

Dæmi um skemmdir sem háhyrningar unnu á bát við Gíbraltarstrendur …
Dæmi um skemmdir sem háhyrningar unnu á bát við Gíbraltarstrendur nú í vor. AFP

Gæti hafa lent í ryskingum eða fest sig í veiðarfærum

„Áfallið sem hún lenti í hefur gert hana árásargjarna gagnvart bátum og snekkjum, og yngri háhyrningar herma eftir þessari árásargjörnu hegðun,“ segir hann í samtali við breska miðilinn The Telegraph. Talið er að Gladis leiti hefndar eftir að hafa lent í ryskingum við bát eða fest sig í veiðarfærum. 

Þann 2. maí síðastliðinn nálguðust sex háhyrningar bátsskrokk snekkju að gerðinni Bavaria 46, sem sigldi meðfram ströndum Gíbraltar, nærri borginni Tangier í Marokkó. Lögðu þeir til atlögu sem varði í klukkutíma, bátaeigendunum Janet Morris og Stepher Bidwell til nokkurs ama. 

Ráðast að bátnum aftan frá 

„Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei geta gleymt. Við urðum agndofa,“ sagði Bidwell í samtali við miðilinn. Eftir að hafa unnið töluverðar skemmdir á snekkjunni missti hópurinn áhugann og hélt sína leið.

Þá réðst hópur háhyrninga á bát við strendur Spánar á þriðjudag, með þeim afleiðingum að gat kom á bátinn. Kalla þurfti til viðbragðsaðila til þess að koma í veg fyrir að báturinn sykki. 

Árásunum hefur farið ört fjölgandi en háhyrningarnir hafa nálgast báta að aftanverðu og látið höggin dynja á stýrisköplum bátanna. Sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan hvernig farið er að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert