Fundin sek um manndráp af gáleysi

Hannah Gutierrez-Reed, umsjónarmaður vopna á tökustað, sést hér við upphaf …
Hannah Gutierrez-Reed, umsjónarmaður vopna á tökustað, sést hér við upphaf réttarhaldanna í febrúar. AFP/Eddie Moore

Hannah Gutierrez-Reed, umsjónarmaður skotvopna og skotfæra á tökustað myndarinnar Rust, var fyrr í kvöld fundin sek um manndráp af gáleysi fyrir aðild sína að andláti kvikmyndatökumannsins Halynu Hutchins árið 2021.

Leikarinn Alec Baldwin, sem hleypti af voðaskotinu sem drap Hutchins, verður dreginn fyrir rétt í júlí-mánuði, en hann er einnig ákærður fyrir manndráp af gáleysi.

Kviðdómur tók sér einungis um tvo klukkutíma til þess að ákvarða um sekt eða sýknu Gutierrez-Reed, en réttarhöldin höfðu staðið yfir í tíu daga. Hún á yfir höfði sér allt að 18 mánaða fangelsi, en refsing hennar verður ekki ákveðin fyrr en í næsta mánuði.

Þótti fullsannað að Gutierrez-Reed hefði borið ábyrgð á því að alvöru byssukúla endaði í skotvopninu sem Baldwin mundaði á tökustað, með þeim afleiðingum að skot hljóp úr sexhleypunni og fór í Hutchins. Alvöru skotfæri voru hins vegar bönnuð á tökustað.

Sögðu saksóknarar að Gutierrez-Reed bæri ábyrgð á því að þau voru til staðar, og jafnframt að hún hefði vanrækt að sinna skotvopnaöryggi á tökustaðnum líkt og hennar hlutverk var. „Þetta var rússnesk rúlletta í hvert sinn sem leikari fékk vopn með gerviskotfærum í hendurnar,“ sagði Kari T. Morrissey, aðalsaksóknari málsins í lokaræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert