Nýnasistaklúbbar í sauðargæru

Samfélagsmiðlasíður ýmissa „virkniklúbba“ norskra sem láta lítið á sér bera …
Samfélagsmiðlasíður ýmissa „virkniklúbba“ norskra sem láta lítið á sér bera og lokka til sín ungmenni gegnum athafnir sem virðast saklausar. Að baki standa nýnasistar. Samsett mynd/Skjáskot

Norskir klúbbar hægriöfgmanna, svokallaðra nýnasista, hafa nú bryddað upp á nýrri aðferðafræði til að lokka til sín ungt fólk. Frá þessu greinir norska öryggislögreglan PST og kveður þróunina ískyggilega.

Það er af sem áður var þegar skandinavískir nýnasistar heilluðu barnunga nýliða, gjarnan unglinga sem átt höfðu erfitt uppdráttar í skóla eða komu frá brotnum heimilum, með því að telja þeim trú um að þeir tilheyrðu hinum æðsta og hreinasta kynþætti og sætu þar með efstir í einhvers konar samfélagslegri fæðukeðju.

Nú er annað uppi á teningnum. Nú kalla norskir nýnasistar klúbba sína „virkniklúbba“, „aktivklubber“ á norsku, „active clubs á ensku“. Þarna eru nýir félagar ekki þjálfaðir í nasistakveðjum eða skreyttir járnkrossum heldur boðaðir í fjallgöngur og á skákkvöld auk þess að æfa bardagaíþróttir.

Einræðismiðað þjóðernishyggjuveldi

Boðskapurinn – til að byrja með – er ekki að úthella blóði í nafni hins aríska kynþáttar heldur frasi sem náð hefur flugi um gervallt lýðnetið í anda sjálfsræktarstefnu síðustu ára – að verða „besta útgáfan af sjálfum sér“.

„Þeirra stefna er einræðismiðað nýnasískt þjóðernishyggjuveldi þar sem hvíti maðurinn trónir á toppnum,“ segir Siv Sørensen, afbrotafræðingur og ráðgjafi hjá PST, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og kveður öryggislögregluna vel meðvitaða um starfsemi nýju klúbbanna í Noregi.

„Hér er ekkert á ferðinni sem heitir inngilding, jafnrétti, femínismi og fjölbreytileiki. Þetta er hrein hægriöfgastefna í örlítið breyttum umbúðum,“ heldur Sørensen áfram og bætir því við að þarna sé á ferð þekkt aðferðafræði hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams frá því á velmektardögum þeirra árið 2014 og þar á eftir.

Þjóðernislegar sjálfsumbætur

Heimildarmyndaþátturinn Norrænir synir, „Sønner av Norden“, á P3-rás NRK lýtur stjórn Mörthu Antonette Solli og rannsakar hún þar hægriöfga-menningarkima á Norðurlöndunum. Meðal viðmælenda Solli er ungur maður sem tengist „virkniklúbbunum“ í Noregi. Sá féllst á að ræða við Solli gegn nafnleynd og gengur í þáttunum undir nafninu „Magnus“.

„Er eitthvað þýðingarmeira en að passa upp á sitt eigið fólk?“ spyr „Magnus“ í viðtali við Solli. Fréttamönnum NRK er kunnugt um hver maðurinn raunverulega er, áður fyrr var hann virkur í starfsemi samtakanna Norrænu mótspyrnuhreyfingarinnar, „Nordiske Motstandsbevegelsen“.

Hann kveðst upptekinn af „sjálfsumbótum í þjóðernislegu augnamiði“ en neitar þó að fara nánar út í hvað það í raun tákni. Þá vill hann ekki staðfesta að hann sé félagi í „virkniklúbbi“ í Noregi en gengst við því að hafa tengsl við klúbbana. „Hvers vegna þessi leynd?“ spyr Solli. „Það er vegna þess að fólk er að reyna að koma mér fyrir kattarnef,“ svarar „Magnus“.

Reiðubúnir að láta til skarar skríða

Í áhættumati sínu fyrir árið 2024 skrifar PST að helstu ógnirnar sem að Noregi steðji séu hægriöfgar og öfgakennd íslamstrú. „Hvað hægriöfgar áhrærir stafar helsta ógnin af börnum og ungmennum sem verða fyrir áhrifum á lýðnetinu. Reynslan frá öðrum löndum sýni að í þessum hópi finnist einstaklingar sem reiðubúnir séu að láta til skarar skríða og fremja hryðjuverk.

Enn sem komið er telur PST þó að „virkniklúbbarnir“ teljist ekki sérstök ógn við þjóðaröryggi, „en við óttumst að þeir sendi út meira og minna dulbúinn hugmyndafræðilegan boðskap“, segir Sørensen.

Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Lasse Josephsen, sem hefur fylgst grannt með hægriöfgahópum í Noregi, telur „virkniklúbbana“ í landinu mynda víðfeðmt net. „Fyrst og fremst er þeim ætlað að mynda alþjóðlegt net lítilla hópa sem tengjast hver öðrum án þess þó að tengjast raunverulega,“ útskýrir Josephsen.

Sú staðreynd geri það að verkum að mun óhægara sé um vik að reisa skorður við starfseminni. Klúbbarnir séu kannski ekki margir enn sem komið er, en þeim fjölgi ört.

Forðast athygli

Robert Rundo heitir Bandaríkjamaður og nýnasisti sem talinn er upphafsmaður virkniklúbbahreyfingarinnar. Hann líkir klúbbunum við leiðtogalausa andspyrnuhreyfingu. Takmarkið sé að þjálfa upp hópa sem séu reiðubúnir til hólmgöngu þegar kallið kemur.

Með því að hafa ekki uppi ógnandi háttsemi og ganga um með nasistatákn á almannafæri forðast þeir að vekja athygli eftir því sem Rundo greinir frá. Í Noregi eru minnst þrír klúbbanna með síður á samfélagsmiðlum en á heimsvísu er talið að rúmlega hundrað klúbbar hafi verið stofnaðir tímabilið frá 2020 þar til ágúst í fyrra.

Erfitt er hins vegar að slá því föstu hve margir félagarnir séu í hverjum klúbbi en fimm til 25 er talið nærri lagi. Í Svíþjóð er talan þó hærri, milli 50 og 100 á hvern klúbb.

Norsku hryðjuverkamennirnir Anders Behring Breivik og Philip Manshaus voru einir að verki og tilheyrðu engum klúbbum beinum félagaböndum.

„Það þarf ekki nema eina manneskju sem hefur öfgavæðst til að fremja hryðjuverk,“ segir Katrine Fangen, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Ósló, sem rannsakað hefur hægriöfgahópa í landinu og skrifað bók um nýnasista í Noregi.

Hún telur fáa Norðmenn félaga í klúbbunum en á netinu séu þeir hins vegar mun fleiri sem taki þátt í umræðum og skoðanaskiptum í lokuðum hópum. „Þeir eru meira neðanjarðar og erfiðara að fylgjast með þeim en á sama tíma er það fagnaðarefni að þessi hreyfing er ekki jafn skipulögð og hér áður fyrr,“ segir prófessorinn.

NRK
NRKII (miðstöð gegn öfgum)
Þættirnir Norrænir synir á P3

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert