Tveimur bjargað úr ánni – Neyðarástandi lýst yfir

Skip siglir undir brúna Francis Scott Key árið 2021.
Skip siglir undir brúna Francis Scott Key árið 2021. AFP/Brendan Smialowski

Tveimur hefur verið bjargað úr ánni Patapsco eftir að flutningaskip rakst á brúna Francis Scott Key í bandarísku borginni Baltimore með þeim afleiðingum að hún hrundi. Talið er að allt að tuttugu hafi fallið í ána. 

Annar þeirra sem björguðust er alvarlega slasaður, að sögn slökkviliðsstjórans í Baltimore, James Wallace.

Hann bætir við að leit standi yfir að allt að sjö manneskjum.

Ríkisstjórinn í ríkinu Maryland hefur lýst yfir neyðarástandi eftir slysið en allt að 20 manns féllu ofan í ána og þó nokkur farartæki. 

Áhöfnin slapp 

Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins Synergy Marine Group, eiganda flutningaskipsins sem rakst á brúna, voru 22 manns um borð í skipinu, allir Indverjar. Einn úr áhöfninni hlaut skrámu á höfði en annars slasaðist enginn.

Þó nokkrar sprengingar urðu þegar skipið, sem er 300 metra langt, rakst á brúna.

„Því miður skilst okkur að allt að 20 einstaklingar gætu verið í Patapsco-ánni núna, ásamt mörgum farartækjum,” sagði Kevin Cartwright hjá slökkviliðinu í Baltimore.

Wallace slökkviliðsstjóri staðfesti að margir hefðu hringt í neyðarlínuna í morgun vegna fólks sem hefði lent ofan í ánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert