Heita því að koma á lögum og reglu

Lögreglumaður vaktar götur höfuðborgarinnar til að verja íbúa frá glæpagengjum.
Lögreglumaður vaktar götur höfuðborgarinnar til að verja íbúa frá glæpagengjum. AFP

Forsetaráð Haítí hét því í dag að koma á lögum og reglu á ný í landinu. Ófriðaralda hefur gengið yfir Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, eftir að fjöldi glæpagengja slapp úr fangelsi. 

„Við erum staðráðin í að lina þjáningar haítísku þjóðarinnar, sem hefur allt of lengi þurft að líða fyrir slæma stjórnunarhætti, margþætt ofbeldi og lítilsvirðingu við sjónarmið þeirra og þarfir,“ sagði í tilkynningu ráðsins. 

Óeirðir í landinu hófust fyrr í mánuðinum er ráðist var inn í eitt fangelsa borgarinnar og þúsundir fanga voru ólöglega leystir úr haldi. 

Fjölskylda á skellinöðru í Port-au-Prince.
Fjölskylda á skellinöðru í Port-au-Prince. AFP

Stjórnleysi og neyðarástand

Tóku glæpagengi skjótt yfir stóran hluta höfuðborgarinnar og kváðust ekki sjá annarra kosta völ en að fjarlægja forsætisráðherra landsins, Ariel Henry, úr embætti með valdi. 

Ekki var sú krafa úr lausu lofti gripin en Henry hafði setið á valdastólnum í 32 mánuði og var ekki útlit fyrir að hann hygðist láta af embættinu átakalaust þrátt fyrir ákall almennings.

Henry tók við embættinu eftir að forveri hans Joveneil Moïse var myrtur. 

Í kjölfar myndunar forsetaráðsins fyrir tveimur vikum hét Henry þó að láta af embættinu um leið og búið væri að koma ráðinu almennilega á fót. Hefur aftur á móti reynst erfitt að ná samkomulagi milli flokka landsins og ákveða hver taki við embætti forsætisráðherra.

Á meðan hefur ríkt stjórnleysi og neyðarástand í landinu og segja hjálparsamtök á borð við UNICEF að fjöldi barna í landinu sé í bráðahættu vegna skorts á matvælum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert