Ekki verra veður í langan tíma

Björgunarsveitarmenn í Lífsbjörg sinntu fjölmörgum útköllum í nótt. Myndin er …
Björgunarsveitarmenn í Lífsbjörg sinntu fjölmörgum útköllum í nótt. Myndin er úr safni. mbl.is/Alfons

Ég man ekki eftir svona veðri í áratugi,“ segir Alfons Finnsson, fréttaritari mbl.is í Ólafsvík, um veðrið í bænum í gærkvöldi. Í fyrstu kyngdi snjónum niður en um klukkan 23 fór að rigna mikið og hávaðarok brast á. Björgunarsveitin Lífsbjörg hafði því í nógu að snúast vegna fjölda útkalla sem aðallega snérust um fok á lausamunum. „Það var ekki hundi út sigandi í gær,“ segir Alfons.

Hafþór Svansson, formaður björgunarsveitarinnar Lífsbjargar, tekur í svipaðan streng. „Það var bara mjög slæmt veður, það er langt síðan það hefur verið svona slæmt hjá okkur.“

Hann segir að útköllin hafi fyrst og fremst snúist um minni háttar fok á lausamunum á Rifi og Hellissandi sem og þakplötur sem tóku sig upp í rokinu.

Þá losnaði bátur frá bryggju á Rifi í nótt en björgunarsveitarmönnum tókst að tryggja hann. „Þetta tókst allt saman vel og vel tókst að fergja lausa hluti,“ segir hann um verkefni næturinnar. 

Átta menn frá Lífsbjörg sinntu verkefnum allt þar til klukkan 4 í nótt. Hafþór segist ekki telja að meiri háttar tjón hafi orðið en skoða verði aðstæður betur þegar birti.

Enn er hvasst á Snæfellsnesi en Hafþór segir veðrið þó við það að fara að ganga niður.

Samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands mældist meðalvindur í Ólafsvík frá klukkan 23 í gærkvöldi og þar til um 4 í nótt 30 m/s. 42 m/s urðu í hviðum.

Veðurspá næsta sólarhrings er þessi:

Suðaustan 18-25 m/s vestan til á landinu og gengur einnig í sunnanhvassviðri eða -storm austanlands með morgninum. Slydda eða rigning á láglendi, en úrkomulítið norðaustan til. Hiti 2 til 7 stig.

Snýst í allhvassa suðvestlæga átt með slydduéljum um vestanvert landið laust fyrir hádegi, en áfram sunnanhvassviðri eða -stormur austan til fram eftir degi og rigning suðaustanlands. Kólnar í veðri.

Suðvestan 8-15 m/s og él í kvöld og á morgun, en léttskýjað á austanverðu landinu. Hiti um og undir frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert