Átökin snerust ekki um stefnu

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fjallaði í ræðu sinni á flokksþingi flokksins um traust og hvernið traustið þvarr. Traust sé fallvalt og ekkert megi koma upp á.

Framsóknarflokkurinn er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Hann er ríkjandi afl í íslenskum stjórnmálum, að sögn Sigurðar Inga.

„Við eigum traust fylgi, traustan kjarna. Ef við látum hugann reika rúman áratug aftur í tímann þá gekk flokkurinn í gegnum erfiðleika. Traustið þvarr. Fylgi flokksins dalaði.  

Fyrir rúmum áratug voru stjórnmálamenn og flestir flokkar rúnir trausti almennings - og það getur tekið tíma að byggja upp traust og trúnað á ný.

Í kjölfar bankahrunsins komu ný tækifæri sem fleyttu okkur fram á völlinn á ný. Tækifærin fólu í sér endurkomu fyrir Framsóknarflokkinn.

Okkur gekk vel. Við vorum gagnrýnin og sýndum festu og náðum góðum og verðskulduðum árangri árið 2013. Við ætluðum að gera betur og hlustað var á rödd Framsóknarflokksins.

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands.

Í kjölfarið settumst við í ríkisstjórn. Ríkisstjórn með mikil plön. Við stóðum við stóru orðin. Við efndum loforðin.

En nýfengið traust er fallvalt. Ekkert má koma uppá. En það var það sem gerðist í apríl 2016. Traustið hvarf. Trúverðugleikinn þvarr.

Í kjölfarið varð ólga. Í flokknum okkar varð innri ólga. Það voru átök. Ekki um stefnu eða leiðir. Átökin snérust ekki um hvaða stefnu þyrfti til – til að ná trausti almennings og flokksmanna á ný. Ágreiningurinn var um hvernig við næðum trausti á ný.

Á síðustu 6 mánuðum höfum við farið um langan veg – djúpa dali, brattar brekkur. En við komumst upp – upp á efstu tinda.

Við getum verið stolt af því trausti sem við höfum áunnið okkur á skömmum tíma. Við endurheimtum kynni okkar af hinum eina sanna Framsóknaranda. Gleðin, samheldni, samstaðan og vináttan sem umlykur okkar góða hóp er ómetanleg.

Við fundum gleðina við hópeflið, samvinnuna sem skilaði okkur skýrri stefnu,“ segir Sigurður Ingi.

Skoðanakannanir í nóvember 2017 sýndu að 73% vildu fá Framsókn í ríkisstjórn, segir Sigurður Ingi. „Já, landsmenn vildu helst fá okkur til að stýra landinu. Það er heilbrigðisvottorð um heiðarlegan flokk, skynsama stefnu og öflugt fólk.

En munum traust er ekki gefið.

Það skiptir öllu hvernig við umgöngumst valdið, hvernig við vinnum saman og leiðum málin til lykta. Þetta kunnum við Framsóknarmenn, þarna liggja rætur okkar -  við erum komin aftur.

Við höfum í hendi okkar hvernig við vinnum úr tækifærum framtíðarinnar, hvernig sú saga verður skrifuð. Við ætlum að gera það sem í okkar valdi stendur til að byggja hér áfram upp gott og samkeppnishæft samfélag. Samfélag fyrir alla.

Við höfum oft sýnt það í verki, hvað sem aðrir segja. Og við eigum að vera hreykin af verkum okkar, hafa sjálfstraust til þess og láta í okkur heyra,“ segir Sigurður Ingi.

Formaður Framsóknarflokksins fjallaði um komandi sveitarstjórnarkosningar og segir framboðin mörg og aldrei hafi jafn mörg áhugaverð sæti verið í boði.

„Áherslur okkar eiga erindi við þjóðina. Mennta- og skólamál eru víða í ólagi.

Starfsumhverfi skólanna er víða erfitt. Skólinn á að vera eftirsóttur vinnustaður. Það er skylda okkar að efla starfið á öllum skólastigum. Kennarar verja margir hverjir meiri tíma með börnunum en foreldrar.

Okkur ber skylda til þess að styðja betur við kennarana. Hér þurfa ríki og sveitarfélög að koma að og finna lausnir – það má t.a.m. gera með að búa til hvata í námslánakerfinu okkar,“ segir Sigurður Ingi.

Hann fjallaði meðal annars um ungt fólk í dag og segir að með því kemur ný hugsun og nýjar áherslur til að leysa framtíðarvanda. Muna þurfi eftir unga fólkinu og treysta því fyrir ábyrgðarstörfum – þau þora – þau geta og þau eru tilbúin, segir Sigurður Ingi.

mbl.is

„Á tímum þegar byltingar gerast er gott að hafa traust félagskerfi og innviði til að takast á við afleiðingar byltinga. Sumar byltingar eru nefnilega góðar og jafnvel nauðsynlegar.

Ein slík er í gangi - hófst í haust, MeToo byltingin. Eins sársaukafullt eins og það var/er að lesa frásagnir kvenna úr ólíkum hópum um upplifanir sínar þá er það mikilvægast hvernig við tökum á við að breyta því sem breyta þarf og það verður að gerast. Þess vegna er gott að eiga LFK að – sem hefur nýlega lokið við glæsilegt ársþing sitt – en líka jafnréttis-fulltrúa og -ráð flokksins en ekki síður fjölmarga einstaklinga – konur sem karla – sem láta sig málið varða og hjálpa okkur gera heiminn betri.

Í samstarfi við aðrar stjórnmálahreyfingar settum við fulltrúa frá okkur í vinnu við að móta aðgerðaáætlun sem er í vinnslu  og kynnt var í gær,“ segir formaður Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi segir að miklu hafi verið áorkað í húsnæðismálum.

„Lög um fyrstu fasteign skiluðu góðum árangri  fyrir fyrstu kaupendur og Húsnæðissamvinnufélög fengu jafnframt betri umgjörð.

Stofnframlög til almennra íbúða eru grundvöllur að fjölmörgum nýbyggingum í mörgum sveitarfélögum – þá aðallega á höfuðborgarsvæðinu.

En við viljum gera betur og halda áfram að styðja við unga fólkið okkar. Þar hefur félagsmálaráðherra talað skýrt um mikilvægi þess að bregðast verði við húsnæðisvandanum.

Við höfum horft til annarra þjóða í þeim efnum. Og hvernig við getum lært af þeim sem hafa glímt við sams konar vanda og fundið á honum lausnir.

Staðan er alvarleg, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig í vítt og breitt um landið. Á sumum svæðum hefur vart verið byggt síðan um aldamótin. Þetta þekkið þið.

Talandi um unga fólkið þá get ég ekki látið hjá líða að nefna hversu dapurlegt til þess er að vita að smálánafyrirtækin virðist beina sínum spjótum að fólki sem á erfitt með að fóta sig á lánamarkaði. Ég kalla eftir samfélagslegri ábyrgð þessara fyrirtækja“ segir Sigurður Ingi.

Ekki eftirspurn eftir illindum vinstri stjórnar né Trump- og popúlisma

Formaður Framsóknarflokksins segir menn spyrja sig oft hvernig á að vinna á Alþingi. „Að mínu mati er það verkefni okkar stjórnmálamannana að vinna saman. Við stjórnmálamenn eigum að leggja okkur fram um að leysa málin af skynsemi og sanngirni - fyrir fólkið í landinu – að bæta hag fjöldans.

Að viðhalda stöðugleika krefst samvinnu og heiðarlegs samtals. Heilbrigðar umræður, rökræður þar sem menn takast á um strauma og stefnur – það er enginn að tala um að allir séu alltaf sammála – það sitja átta flokkar á þingi með mismunandi sýn á leiðir. Og þar með fullkomlega eðlilegt að tekist sé á.

Mér er það hinsvegar stórlega til efs að hinn almenni kjósandi biðji um uppþot á Alþingi. Kjósendur báðu um pólitískan stöðugleika og frið til að byggja upp samfélagið. Að því vinnur meirihlutinn.

Það er lítil eftirspurn eftir popúliskum tilburðum að fyrirmynd Trumpara austan eða vestan Atlantsála. Og engin eftirspurn eftir illindum vinstri stjórnarinnar frá 2009-2013,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert