Spá snjókomu í allhvassri norðaustanátt

mbl.is/Gúna

Spáð er allhvassri norðaustanátt með snjókomu eða éljum norðan- og austanlands, einkum í nótt og í fyrramálið, segir á vef Veðurstofu Íslands. Fróðárheiði er ófær og snjór víða á Snæfellsnesi.

Vegir á Suðurlandi eru greiðfærir en hálka eða hálkublettir eru áköflum á Suðurnesjum. Hálka eða snjóþekja er á utanverðu Snæfellsnesi og Fróðárheiði er ófær. Vegir á Vesturlandi eru að öðru leyti mikið til greiðfærir.

Það er snjór á fjallvegum á sunnanverðum Vestfjörðum og skafrenningur en annars er þar víðast hvar nokkur hálka. Á Norðurlandi vestra eru vegir að miklu leyti auðir en þar fyrir austan er víðast hvar hálka eða snjóþekja.

Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Austurlandi en vegir með suðausturströndinni eru greiðfærir, segir á vef Vegagerðarinnar.

Spáin um helgina

Austlæg átt 8-15 m/s, hvassast vestast. Snjókoma með köflum vestast í fyrstu, en annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en bætir í vind með éljum fyrir austan. Norðaustan 8-18 í nótt og á morgun og snjókoma eða él norðan- og austantil, en þurrt og bjart að mestu um landið suðvestanvert, hvassast á annesjum norðan til og í Öræfum.

Dregur úr vindi og ofankomu annað kvöld. Frost yfirleitt 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum, en frostlaust við S-ströndina að deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert