Þúsund manns skráðir í WOW Cyclothon

Frá rásmarki WOW Cyclothon í fyrra.
Frá rásmarki WOW Cyclothon í fyrra. mbl.is/Hari

Tæplega þúsund hjólreiðamenn eru skráðir í WOW Cyclothon-hjólreiðakeppnina sem fer fram í lok næstu viku. Keppendur hjóla alls 1.358 kílómetra hringinn í kring um Ísland. Keppt er bæði í liðakeppni og flokki einstaklinga og hafa liðin þrjá sólarhringa til að komast í mark en einstaklingarnir hafa 84 klukkustundir.

Flestir keppenda eru skráðir til leiks í B-flokki tíu manna liða, eða 720 manns í 72 liðum. Tólf lið eru skráð til leiks í A-flokki fjögurra manna liða og fimmtán lið eru skráð í flokki Hjólakrafts sem er sérstakur flokkur yngstu keppenda. Loks eru fjórir skráðir í flokki einstaklinga, þar á meðal er Elín V. Magnúsdóttir sem freistar þess að verða fyrsta konan til að klára hringinn ein síns liðs.

Einstaklingar og lið í flokki Hjólakrafts verða flautuð af stað klukkan 15 þriðjudaginn 26. mars frá Öskju á Krókhálsi. Degi síðar, miðvikudaginn 27. júní, fara A- og B-flokkar af stað frá Egilshöll; A-flokkurinn klukkan 18 og B-flokkur klukkan 19.

Hjólað er um Þjóðveg 1 með fimm undantekningum. Frá upphafsstað liggur leiðin um Vesturlandsveg, inn á Þingvallaveg og Kjósarskarðsveg áður en komið er í Hvalfjörð. Rétt áður en komið er að Mývatni er tekin vinstri begyja og hjólað norðan megin við vatnið. 

Þá er farið um Öxi en ekki um Breiðdalsheiði og frá Selfossi er beygt til suðurs fram hjá Eyrarbakka og inn á Suðurstrandarveg inn á Krýsuvíkurveg gegnum Krýsuvík og að marki við Hvaleyrarvatnsveg. Búist er við að fyrstu liðin komi í mark um klukkan sjö að morgni föstudagsins 29. júní.

Fjallað verður um liðin í WOW Cyclothon á mbl.is á næstu dögum og mun mbl.is einnig fylgja hjólreiðamönnunum hringinn og flytja fréttir í beinni frá hjólreiðakeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert