Orkuskiptin efnahagslegt sjálfstæðismál

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki bara til þess fallna að takast á við þær áskoranir og ógnir sem steðja að mannkyninu vegna loftslagsbreytinga, heldur myndi aðgerðaáætlunin einnig stuðla að betra lífi og sjálfbærari tilveru á Íslandi.

Þessi orð lét Bjarni falla á blaðamannafundi í Austurbæjarskóla í dag, þar sem sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu í sameiningu nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ríkisstjórnin leggur þar fram 34 aðgerðir sem ráðist verður í, en 6,8 milljörðum króna verður varið til ýmissa verkefna á næstu fimm árum, þar af 1,5 milljörðum í að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum, t.d. með uppbyggingu innviða fyrir rafbíla.

„Það er í því fólgið stórkostlegt tækifæri fyrir okkur ef við náum að taka þessar tæknibreytingar til handargagns við að byggja samgöngur í landinu á sjálfbærum innlendum orkugjöfum, í stað þess að sækja orkuna til annarra landa í formi olíu. Það eitt og sér er efnahagslegt sjálfstæðismál,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is, en samkvæmt aðgerðaáætluninni er talið raunhæft að stefna að því að allri brennslu jarðefnaeldsneytis verði hætt hér á landi um miðja öldina.

„Við höfum séð það til dæmis á undanförnum árum í Bandaríkjunum að þar hefur verið lögð aukin áhersla á að tryggja efnahagslegt sjálfstæði Bandaríkjanna með því að vinna meira af olíu í stað þess að flytja hana inn. Þetta er ekkert ósvipuð hugsun sem að ég er að koma frá mér, það er að segja, að það að geta nýtt eigin orkugjafa er stórkostlegt efnahagslegt sjálfstæðismál fyrir ríki. Við höfum ekki haft tækifæri til þess að gera stóra hluti í þessu í samgöngum fram til þessa, þar sem tæknin hefur ekki verið til staðar, en hún er núna á fleygiferð, er komin og mun á næstu árum fyrirsjáanlega halda áfram að þróast,“ segir Bjarni.

Það var létt yfir ráðherrunum sjö á blaðamannafundinum í Austurbæjarskóla …
Það var létt yfir ráðherrunum sjö á blaðamannafundinum í Austurbæjarskóla í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég trúi því að fyrir árið 2030 verði útlitið í þessum málum allt allt annað en við sjáum í dag,“ bætir Bjarni við, en í aðgerðaáætlun stjórnvalda er sú aðgerð, að stefna að banni gegn nýskráningu bensín- og dísilbíla eftir 2030, ekki síst sögð mikilvæg vegna þeirra skilaboða sem í henni felist fyrir bílaframleiðendur.

En telur Bjarni að bílaframleiðendur verði almennt hættir að framleiða bíla sem ganga einungis fyrir jarðefnaeldsneyti eftir tólf ár?

„Ég ætla kannski ekki að spá því. Á einstaka svæðum og einstaka löndum er orkuöflunin orðið sjálfstætt vandamál. Það er nú kannski ekki mikið unnið fyrir sum ríki að fara að brenna olíu eða kolum til að framleiða rafmagn svo hægt sé að nota rafmagnsbíl, svo það má alveg gera ráð fyrir því að einhverjir verði eftirbátar okkar á þeim tíma, en ég held hins vegar að bílaframleiðendur muni hafa náð mjög miklum framförum frá því sem við sjáum í dag eftir þennan rúma áratug og það eru mikil tækifæri í því fyrir okkur að nýta okkur þá breytingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert