Konum fjölgar í hópi skotvopnakorthafa

Skotveiðimenn munda skotvopn sín á gæsaveiðum. Mynd úr safni.
Skotveiðimenn munda skotvopn sín á gæsaveiðum. Mynd úr safni. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Tæplega 1.400 manns tóku þátt í skotvopna- og veiðikortanámskeiðum Umhverfisstofnunar þetta árið og eru 550 Íslendingar nú nýir veiðikorthafar. Það færist þá í vöxt að konur afli sér skotveiðiréttinda, að því er fram kemur fram í frétt á vef stofnunarinnar.

Teymi veiðistjórnunar og lífríkismála hjá Umhverfisstofnun auglýsti 41 námskeið um allt land í ár og er tímabili skotvopna- og veiðikortanámskeiða nú lokið þetta árið. Þátttakendur voru ríflega 1.380 og eru 550 Íslendingar nýir veiðikorthafar að loknum námskeiðunum.

Konum fer þá fjölgandi í hópi þeirra sem afla sér skotveiðiréttinda og voru þær um 20% þeirra sem tóku þátt á námskeiðum Umhverfisstofnunar.

Ásdís Helga Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á Egilsstöðum, sem hefur umsjón með námskeiðshaldinu, segir að fjöldi þeirra sem sóttu námskeiðin hafi verið með því mesta miðað við undanfarin ár. Áhugi á skotveiðum sé töluverður og margir séu jafnvel að öðlast skotvopnaréttindi til að stunda skotíþróttina á skotvöllum landsins, án þess að fara endilega á veiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert