Útilokar ekki frekari frestun orkupakka

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist ekki getað …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist ekki getað útilokað frekari frestun orkupakkans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er útilokað að framlagning frumvarps um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins frestist lengur en til vorþings. Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is.

Í gær sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við Rúv, að fyrir lægi ákvörðun ríkisstjórnar um að fresta málinu fram á vor vegna gagnrýni sem orkupakkinn hefði fengið og að sérfræðingar myndu fara yfir málið.

Þórdís segir ákvörðun um að fresta málinu hafa legið fyrir síðan í ágúst.

„Þetta var á þingmálaskránni á vorþingi [2018]. Undir venjulegum kringumstæðum hefði það verið fært yfir á haustið þegar þing kæmi aftur saman, en við tókum ákvörðun um að setja þetta yfir á vorþing [2019] til þess að fara nánar yfir málið og svara helstu spurningum og gagnrýni sem hefur komið fram á seinni stigum.“

„Ég hef alltaf sagt að okkur liggur ekkert á og við viljum skoða þetta vandlega,“ bætir ráðherrann við.

Hún upplýsir að framlagning frumvarpsins muni fara eftir því hvenær vinnu sérfræðinganna lýkur og vísar til þess að ný þingmálaskrá muni liggja fyrir um áramótin.

„Það hefur engin slík ákvörðun verið tekin,“ svarar Þórdís Kolbrún spurð um hvort þriðja orkupakkanum gæti verið frestað frekar. Við spurningu um hvort hægt sé að útiloka frekari frestun málsins svarar hún: „Það er aldrei hægt að útiloka neitt um þingmál sem eru í vinnslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert