Stjórnvöld vel upplýst um stöðu Wow air

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra ræddi stöðu Wow air …
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra ræddi stöðu Wow air í dag. mbl.is/​Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra sagðist hafa áhyggjur af stöðu flugfélagsins Wow air og að stjórnvöld hafi fylgst grannt með stöðu mála lengi þegar mbl.is náði tali af honum fyrr í dag. Hann vonar það besta en segir stjórnvöld undirbúin undir það versta.

„Við höfum auðvitað fundað reglulega síðan í vor um kerfilega mikilvæg fyrirtæki og tókum flugið sérstaklega fyrir. Við höfum auðvitað haft bæði áhyggjur og verið síðan mjög vel upplýst um stöðuna á hverjum tíma,“ sagði Sigurður Ingi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttur tóku í sama streng og Sigurður og sögðu stjórnvöld hafa fylgst náið með stöðunni í marga mánuði og geri það enn.

„Við höfum undirbúið eðlileg viðbrögð af hálfu stjórnvalda og metið það hvort,  þegar um kerfislega mikilvæg fyrirtæki sé að ræða, það kæmi til álita annars konar inngrip en raun ber vitni en niðurstaða okkar hefur alltaf verið sú að þetta séu félög á markaði og ekki eðlilegt að ríkið stígi þar inn í,“ bætti Sigurður við og ítrekaði þar með afstöðu ríkisstjórnarinnar sem komið hefur fram meðal annars í máli forsætisráðherra fyrr í haust að stjórnvöld ætli ekki að grípa inn í fari svo að Wow air lendi í frekari rekstrarörðugleikum.

„Hins vegar er það verkefni stjórnvalda að búa þannig um hnútana um að allt sé eftirlit sé eins gott og hægt er. Hafa allar upplýsingar sem við þurfum, að leggja mat á efnahagsleg áhrif og vera klár með þær viðbragðsáætlanir sem þurfa að vera til staðar og ég held að við höfum nýtt þann tíma mjög vel til þessa,“ sagði hann jafnframt.

Spurður hvort hann væri frekar bjartsýnn eða áhyggjufullur varðandi stöðu Wow air svaraði Sigurður:

„Ég myndi segja að flugrekstur í heiminum og á Íslandi sé á þeim stað að það sé eðlilegt að við höfum áhyggjur þangað til að það fer að skýrast hvort flugfélög almennt séu komin fyrir vind,“ og bætti við:

„Við höfum ævinlega reynt að fá sem bestar upplýsingar og hægt er. Í ljósi þess þá getur maður sagt að maður voni ævinlega að það besta gerist en við höfum undirbúið okkur undir það versta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert