Vitlaus klukka hefur áhrif á marga

Björg Þorleifsdóttir, lektor við læknadeild Háskóla Íslands, segist fullviss um …
Björg Þorleifsdóttir, lektor við læknadeild Háskóla Íslands, segist fullviss um að vitlaust stilt klukka hafi áhrif á marga einstaklinga. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það að seinka sólarupprás og sólsetri getur leitt til þess að líkamsferlum getur seinkað. „Það er bara þannig. Það hefur verið sýnt fram á þetta í fjölmörgum rannsóknum á mönnum, dýrum og plöntum. Þú getur fundið þetta hvar sem er í lífríkinu,“ segir Björg Þorleifsdóttir, lektor við læknadeild Háskóla Íslands.

Í hádeginu í dag hélt umboðsmaður barna fund í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema í Menntaskólanum við Hamrahlíð um hvort seinka eigi klukkunni.

Björg segir sína skoðun vera að það eigi að reyna að breyta klukkunni þar sem þetta hafi áhrif á marga, þó ekki alla.

„Allflestir ráða við það að nota önnur merki en sólarljósið eða dagsbirtuna til þess að stilla líkamsklukkuna,“ segir Björg og vísar til þess að klukkur og reglubundnir lífshættir séu það sem flestir nota. „En það er talsvert stór hluti sem ekki tekst að stilla [líkams]klukkuna rétt og lendir þess vegna í vandræðum.“

Hún segir vitlaust stillta klukku leiða til þess að fólk fari seinna að sofa og að erfiðara verði að komast á fætur snemma morguns.

Spurð hvort breyting á klukkunni skipti máli ef litið er til þess að lítil birta er á veturna og mikil á sumrin, svarar Björg því játandi.

„Það að við höfum svona litla birtu á veturna ætti einmitt að ýta undir það að við höfum klukkuna rétt stillta, þannig að við náum að nýta þá birtu sem kemur á eðlilegan hátt,“ útskýrir hún.

Björg fullyrðir að það að seinka sólarupprás og sólsetri geti leitt til þess að líkamsferlum seinki. „Það er bara þannig. Það hefur verið sýnt fram á þetta í fjölmörgum rannsóknum á mönnum, dýrum og plöntum. Þú getur fundið þetta hvar sem er í lífríkinu.“

„Ég er þess fullviss að við erum að hafa áhrif á talsvert marga og kannski stærsti hópurinn eru unglingarnir, þar sem þeir er enn viðkvæmari fyrir þessum vitlausu merkjum. Það stafar af því að hormónabreytingarnar eru að hafa áhrif á stýringu [líkams]klukkunnar,“ segir lektorinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert