„2050 verðið þið dauð en ekki við“

AFP

Hún var ein í upphafi en nú stefnir í að börn og ungmenni í yfir eitt hundrað löndum taki þátt í samstöðu með loftslaginu. Þrír þingmenn á norska Stórþinginu hafa nú tilnefnt Gretu Thunberg til friðarverðlauna Nóbels fyrir aðgerðir sínar til bjargar loftslagi heimsins.

Thunberg var fimmtán ára þegar hún hóf baráttuna fyrir utan sænska þingið í fyrra vopnuð handskrifuðu spjaldi með áletruninni: Skólaverkfall fyrir loftslagið. Hún er sextán ára gömul í dag og undanfarnar vikur hefur sífellt fjölgað í hópi ungmenna sem hafa fengið nóg af ráðaleysi stjórnvalda víða um heim þegar kemur að loftslagsmálum.

Íslensk ungmenni eru þar ekki undanskilin því á morgun munu þau taka þátt í fjórða skiptið en síðast mættu um 400 börn og ungmenni í Reykjavík.

Í Reykja­vík verður safn­ast sam­an fyr­ir fram­an Hall­gríms­kirkju klukk­an 12 og gengið niður á Aust­ur­völl þar sem hið eig­in­lega verk­fall fer fram með ávörp­um og sam­stöðu. Verk­fallið á Ak­ur­eyri fer fram á Ráðhús­torgi klukk­an 12 til 13.

„Þetta er aðeins upphafið,“ skrifar Greta Thunberg á Twitter. „Ég held að breytingarnar séu á næsta leiti og að fólk muni standa upp fyrir framtíð sinni.“

AFP

Tugþúsundir ungmenna hafa gengið um götur Þýskalands, Belgíu, Bretlands og Frakklands undanfarnar vikur en á morgun verður breyting þar á því talið er að skólastofur muni tæmast víðs vegar um heiminn, allt frá Boston til Bogota, Montreal til Melbourne, Dhaka til Durban, Lagos til London. 

Á einhverjum stöðum hafa yfirvöld reynt að stöðva ungmennin án árangurs. Þegar yfirmaður menntamála í New South Wales í Ástralíu sagði að þeim nemendum sem tækju þátt yrði refsað fékk hann svar fljótlega í hausinn: „Við heyrum í þér og okkur er nákvæmlega sama. Yfirlýsing þín á heima á safni.“

AFP

Óopinbert slagorð hreyfingarinnar fyrir föstudagsmótmælin er: „Dear adults, use your power!“#FridaysForFuture.

Í Frakklandi hafa skilaboðin verið sett á veggspjöld á götum borga og bæja. Einnig þessi skilaboð: „Árið 2050 verðið þið dauð en ekki við.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert