Ósvífið og til skammar fyrir fyrirtækin

Frá kröfugöngunni í miðborg Reykjavíkur í dag í tilefni 1. …
Frá kröfugöngunni í miðborg Reykjavíkur í dag í tilefni 1. maí. mbl.is/​Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það ósvífið og til skammar fyrir fyrirtæki að auglýsa sérstaklega tilboð á baráttudegi verkalýðsins í dag, 1. maí. Hann gagnrýnir Húsgagnahöllina og Rúmfatalagerinn fyrir slíkar auglýsingar sem birtust í fjölmiðlum í dag.

„Það var ein af kröfum okkar í kjarasamningum að 1. maí yrði gerður að stórhátíðardegi. Við náðum því því miður ekki í gegn. Við þurfum svo sannarlega að skerpa á þeirri kröfu næst,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is. „Þarna er verið að höfða til fólks að gera eitthvað allt annað en að sýna samstöðu í verki,“ segir hann.

„Það sem svíður mikið í þessu er kannski ekki það að fyrirtæki hafi opið, heldur þegar þau gera sérstaklega út á alþjóðlegan baráttudag verkalýðshreyfingarinnar þegar við reynum að þétta raðirnar,“ segir Ragnar Þór. Hann segir að fyrirtækin sem um ræði vinni gegn verkalýðshreyfingunni.

„Ég lít þannig á að fyrirtækin sem farin eru að haga sér með þessum hætti séu að gera tilraun til að grafa undan samstöðu í verkalýðshreyfingunni með því að leyfa okkur ekki að eiga þennan eina dag í friði fyrir gylliboðum fyrirtækja. Þetta er dapurleg þróun og svívirðileg framkoma við verkalýðsbaráttuna. Þetta er ósvífið og til skammar fyrir þessi fyrirtæki,“ segir hann. „Fyrirtækin geta verið með tilboð alla aðra daga ársins og það, að geta ekki leyft okkur að eiga þennan dag í friði, er dapurlegt,“ bætir Ragnar Þór við.

Frá kröfugöngunni í dag í miðborg Reykjavíkur.
Frá kröfugöngunni í dag í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

Sniðgengur fyrirtækin þar til þau láta af hegðun sinni

Ragnar Þór kveðst sjálfur munu sniðganga umrædd fyrirtæki, láti þau ekki af hegðun sinni. „Fyrir mitt leyti mun ég ekki stíga fæti framar inn í þessi fyrirtæki nema þau láti af þessu,“ segir hann.

Spurður hvort fleiri dæmi séu um auglýsingar eða tilboð af þeim toga sem birtust í fjölmiðlum í dag segir Ragnar Þór að VR fylgist í það minnsta mjög vel með. Hann segir að þrátt fyrir þetta beri önnur fyrirtæki virðingu fyrir verkalýðsfélögunum á þessum degi.

„Þetta hefur aukist og þróunin verið í þessa átt. Önnur fyrirtæki hafa haft lokað, t.d. Fjarðarkaup. Fleiri og fleiri fyrirtæki virða þennan dag líka,“ segir hann.

Ragnar Þór segir að neytenda- og stéttavitund hafi aukist hér á landi og fyrirtæki þurfi að hugsa til þess. „Við finnum það t.d. með fyrirtæki eins og Íslensk-Ameríska, að fólk er raunverulega farið að sniðganga vörumerki þar. Fólk hefur raunverulega skoðun á því hvort það kaupir þetta brauð eða hitt, eða hvort það kaupir grænar baunir eða ekki. Þetta þurfa fyrirtækin að íhuga verulega,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Trúi ekki lygi og áróðri valdamikilla hagsmunaafla

Ragnar Þór gerði verkfallsaðgerðir flugmanna SAS í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, meðal annars að umfjöllunarefni í grein á vef VR í dag. „Ég spjallaði við nokkra félaga mína og kollega á Norðurlöndunum vegna verkfallsaðgerða rúmlega 1400 flugmanna SAS í Noregi, Svíþjóð og Danmörku,“ ritar Ragnar Þór.

„Ég var aðallega að spyrjast fyrir um orðræðuna í kringum verkfallsaðgerðirnar. Hvort ferðaþjónustufyrirtækin ásamt leiðarahöfundum stærstu miðla og öðrum talsmönnum sérhagsmuna séu að tapa sér eða séu organdi eins og smábörn um meint yfirvofandi endalok fyrirtækja í ferðaþjónustu, eða fyrirtækja almennt, lækkandi hagvexti, falli gjaldmiðla, verðbólgu, hækkandi vöxtum, fjölda uppsögnum, sturluðum kröfum eða óbætanlegu orðspori. Svo er víst ekki,“ segir í pistlinum, en Ragnar Þór setur þetta í samhengi við upplifun sína af íslenskum veruleika og nýundirritaða kjarasamninga.

„Þess vegna megum við ekki trúa lyginni og svívirðilegum áróðri fámennra en valdamikilla hagsmunaafla í okkar samfélagi. Niðurstaðan var ásættanleg en við erum rétt að byrja,“ ritar Ragnar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert