„Við lifum á gullöld klassískrar tónlistar“

Víkingur Heiðar Ólafsson á íslensku tónlistarverðlaununum í apríl.
Víkingur Heiðar Ólafsson á íslensku tónlistarverðlaununum í apríl. mbl.is/Eggert

„Við lifum á gullöld klassískrar tónlistar,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson í viðtali við breska dagblaðið The Guardian í tilefni þess að hann hlaut verðlaun tónlistartímaritsins BBC fyrir plötu sína Bach. Fékk Víkingur Heiðar verðlaun fyrir hljóðfæraleiksplötu ársins og verðlaun fyrir plötu ársins þvert á flokka.

Víkingur Heiðar kveðst hafa unnið að plötunni í mörg ár og ræðir m.a. um tíma sinn í Oxford þar sem Halla Oddný Magnúsdóttir, eiginkona hans, var við nám, eftir að hann lauk við sex ára nám í Juilliard-skólanum í New York. „Við bjuggum í forljótri byggingu við Gloucester Green - þar sem strætóstoppistöðin er,“ segir Víkingur Heiðar.

„Á þessum þremur árum fékk ég tíma til að uppgötva mína eigin rödd og gerast minn eigin kennari. Á þessum tíma byrjaði ég að spila tónlist eftir Bach, hlusta á hana og hugsa um hann. Bach varð kennarinn minn,“ segir Víkingur Heiðar, en í skorti á leiðbeiningu í tónlist Bach fann hann andrými og innblástur. „Tónlist Bachs er algjör stoðgrind. Það þarf að fylla upp í hana með lit og vera viss um að hlutföllin séu rétt,“ segir hann.

Plötuumslag nýrrar plötu Víkings Heiðars Ólafssonar.
Plötuumslag nýrrar plötu Víkings Heiðars Ólafssonar.

Víkingur Heiðar ræðir meðal annars um þekkt málverk af tónskáldinu þar sem Bach er formlega klæddur og með hárkollu. „Hann er stór maður, örlítið of þungur og alvarlegur að sjá. Ef ég ber hann saman við það hvernig ég upplifi tónlistina hans, þá er myndin mjög ónákvæm. Á henni er hann ekkert sérstaklega vingjarnlegur og hann lítur ekki út fyrir að vera jafn ótrúlega frjór og hugmyndaríkur og tónlist hans ber vitni um,“ segir Víkingur Heiðar.

„Allir vita hvernig á að hlusta á tónlist“

Í viðtalinu fjallar Víkingur Heiðar einnig um uppbyggingu nýju plötunnar, en ekkert lag er lengra en fimm og hálf mínúta. Mörg þeirra er innan við mínúta að lengd og hefur platan yfirbragð popp-plötu. „Ég hugsaði um það hvernig ég hlusta á tónlist. Ég hlusta öðruvísi á hana í tónleikasal heldur en heima við í heyrnartólum eða í hátalara þegar ég elda eða þegar ég er á ferðinni,“ segir Víkingur Heiðar. Platan sé því ekki hönnuð þannig að hlustað sé á hana í heild sinni þótt þá megi taka eftir undirliggjandi þráðum, stefum og endurtekningum. Víkingur Heiðar ítrekar að fólk hlusti á tónlist með mismunandi hætti og fólk geti hlustað á plötuna hvernig sem það vill.

Víkingur Heiðar ræðir einnig um klassíska tónlist á 21. öldinni. „Ég er ánægður að vera uppi hér og nú,“ segir hann. „Við munum horfa til baka eftir fimmtíu ár og hugsa: „Vá. Við áttuðum okkur ekki á gullöldinni sem við lifðum á.“ Það má vera að klassískur tónlistamaður hafi selt fleiri plötur á áttunda og níunda áratugnum, en það tímabil var ekki jafn áhugavert sköpunarlega séð eins og nútíðin. Streymisþjónustur bjóða upp á að það sé hægt að hlusta á allt og að fleira fólk hlusti á klassíska tónlist en áður,“ segir Víkingur Heiðar sem er ósammála því að fólk nú til dags kunni ekki að hlusta á klassíska tónlist.

„Allir vita hvernig á að hlusta á tónlist, alveg eins og allir vita hvernig á að drekka vatn. Þú hlustar bara og annaðhvort líkar þér tónlistin eða ekki. Gott og vel, þú gætir hitt fólk af kynslóð foreldra þinna sem finnst klassísk tónlist vera snobbuð, en hin raunverulega yfirstétt greiðir 500 pund fyrir miða á tónleika með [Rolling] Stones. Öll tónlist sem er spiluð í dag er samtímatónlist,“ segir Víkingur Heiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert