Heildarlaunin að meðaltali 652 þúsund

Heildarlaun félagsmanna VR voru 652 þúsund krónur að meðaltali í febrúar 2019 en miðgildi heildarlauna var 600 þúsund. Þetta kemur fram í launarannsókn félagsins. Grunnlaun voru að meðaltali 644 þúsund en miðgildi grunnlauna var 591 þúsund.

Fram kemur að launarannsókn VR byggi á niðurstöðum í reiknivélinni Mín laun á Mínum síðum á vef félagsins. Félagsmenn skrái þar starfsheiti sitt og vinnutíma í reiknivélina og fái birtan samanburð sinna launa við félagsmenn í samskonar starfi.

„Miðað er við að lágmarki 60% starfshlutfall sem reiknað er upp í fullt starf og er allur samanburður því á grundvelli a.m.k. 100% starfshlutfalls. Launarannsókn fyrir febrúar 2019 byggir á tæplega 11 þúsund skráningum en félagsmenn VR í þeim mánuði voru um 36 þúsund,“ segir ennfremur en launareiknivélin hefur verið í þróun í tæp þrjú ár. Þetta er í fyrsta sinn sem niðurstöður hennar eru birtar.

„Markmið með hönnun á launareiknivélinni var að hún tæki við af launakönnun VR en félagið hefur staðið fyrir árlegri könnun á launakjörum félagsmanna sinna í tvo áratugi. Í ljósi þess að nú eru birtar niðurstöður af Mínum síðum var ekki gerð launakönnun árið 2019.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert