Óskar svara vegna vitnisburðar „Sigga hakkara“

Kristinn Hrafnsson ræðir við fjölmiðla.
Kristinn Hrafnsson ræðir við fjölmiðla. AFP

Ég vænti þess að fleirum en mér þyki forvitnilegt að vita hvernig vera megi að íslensk yfirvöld veiti liðsinni sitt í pólitískum ofsóknum og ofstæki sem lýst hefur verið sem skelfilegustu aðför að frelsi fjölmiðla á Vesturlöndum og blaðamennsku í heiminum á síðari tímum,“ skrifar Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, á Facebook.

Hann hefur sent ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og þremur ráðherrum fyrirspurn um aðstoð yfirvalda við bandaríska lögreglumenn og saksóknara þar í landi vegna rannsóknar á Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Kristinn greinir frá bréfinu á Facebook.

Óskar eftir svari fyrir 14. júní

Hann óskar eftir svari sem allra fyrst og fyrir 14. júní en þá lýkur þeim fresti sem bandarísk stjórnvöld hafa til að skila inn skjölum, og ef til vill bæta við ákærum gegn Assange. Núverandi ákærur fela í sér hámarksrefsingu upp á 175 ára fangelsi.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks. AFP

„Mér hefur borist til eyrna úr fleiri en einni átt að íslenk stjórnvöld hafi nýverið veitt bandarískum erindrekum frá Bandaríski alríkislögreglunni (FBI) og saksóknurum frá þarlendu dómsmálaráðuneyti (Department of Justice - DoJ) aðstoð við sakasókn sem beinist að WikiLeaks og Julian Assange,“ stendur í bréfinu.

Siggi hakkari bar vitni og hlaut friðhelgi

Þar segir að tveir fulltrúar frá áðurnefndum embættum hafi komið hingað til lands 6. maí og átt í samskiptum við embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. Samkvæmt heimildum Kristins hjálpuðu embættin Bandaríkjamönnum að eiga samskipti við Sigurð Inga Þórðarson, betur þekktan sem Sigga hakkara, um að hann bæti vitni gegn því að Sigurður hlyti friðhelgi.

Í kjölfarið á því hafi Sigurður haldið til Bandaríkjanna þar sem hann dvaldi 27. maí til 1. júní þar sem hann gaf vitnisburð fyrir dómstóli í Virginíuríki. Kristinn spyr ráðherra um ráðherra um aðkomu og vitneskju að málinu. Hann spyr ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara á hvaða grunni embættin veiti aðstoðina.

Kristinn veltir því fyrir sér hvort Bandaríkjamenn gefi út ákærur á hendur fleirum, þar á meðal honum sjálfum. 

Þess vegna tek ég það skýrt fram að þetta er rannsókn sem beinist að íslenskum hagsmunum, að íslenskum ríkisborgurum. Mér hugnast það ekki sérstaklega vel þegar íslensk yfirvöld eru að styðja við bakið á rannsókn sem er fordæmd út um allan heim sem aðför að frelsi fjölmiðla. Líklega er þetta versta aðför sem farið hefur verið í gegn fjölmiðlum á síðari tímum,“ segir Kristinn við mbl.is.

„Stjörnuvitnið“ margdæmdur og siðblindur?

Spurður hvað honum finnist um að Bandaríkjamenn leiti aðstoðar hjá Sigga hakkara gegn Assange segir Kristinn að menn geti dæmt það sjálfir.

„Menn geta dæmt hvort það er sérlega trúverðugur vitnisburður sem kemur frá einstaklingi sem, samkvæmt dómskjölum, er með siðblindu eða snert af siðblindu í það minnsta og er dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn níu drengjum,“ segir Kristinn.

Hann bendir einnig á að Sigurður hafi verið dæmdur fyrir þjófabrot, fjársvik og ósannindi. „Hann stal meðal annars 50 þúsund dollurum af Wikileaks eftir að hann var sjálfboðaliði um nokkurra mánaða skeið 2010 til 2011.“

Kristinn segir bandarísk stjórnvöld farin að seilast býsna langt í ofstæki sínu ef „þetta er stjörnuvitni sakarannsóknar þeirra“ eins og hann orðar það.

Að lokum spyr Kristinn hvort ríkisstjórn Íslands ætli að aðstoða stjórnvöld vestanhafs í aðför gegn blaðamannastéttinni.

„Er þetta í anda ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að aðstoða Trump-stjórnina í aðför að blaðamennsku á heimsvísu? Svör óskast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert