Reis upp og gekk á brott

Töluvert var af fólki í miðborginni að fagna 75 ára …
Töluvert var af fólki í miðborginni að fagna 75 ára afmæli lýðveldisins enda afar gott veður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nóttin var með rólegra móti hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en samt höfðu um 80 mál komið til hennar kasta frá því klukkan 17 í gær þangað til 5 í morgun. Flest málanna voru minni háttar  Þar á meðal var tilkynnt um ofurölvi manneskju liggjandi í götunni í miðbænum síðdegis en þegar lögreglu bar að garði var hún upprisin og gengin á brott.

Stuttu síðar, eða skömmu fyrir klukkan 18, var tilkynnt um manneskju sofandi ölvunarsvefni á grasi í miðbænum. Lögregla vakti viðkomandi sem reyndist í þokkalegu standi og gekk sína leið.

Aftur á móti þurfti lögregla að aðstoða mann sem var ósjálfbjarga vegna ölvunar í Hafnarfirði í nótt við að komast til síns heima. 

Á sjöunda tímanum barst lögreglu ábending um manneskju við sjávarsíðuna sem væri í sjálfheldu vegna hækkandi sjávarborðs. Viðkomandi reyndist vera við veiðar og ekki í nokkrum vandræðum.     

Í gærkvöldi var tilkynnt til lögreglu um unglinga að fikta með eld við Austurbæjarskóla. Ekki sást til þeirra né nokkur merki um eld við skólann.   

Um kvöldmatarleytið barst ábending um slagsmál við strætóstoppistöðina í Mjódd en er lögreglu bar að skömmu síðar voru slagsmálahundarnir á brott og hvergi sjáanlegir.

Í gærkvöldi stöðvaði lögreglan för ökumanns sem ók á 65 km hraða þar sem 30 km hámarkshraði er. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Átta ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna á þjóðhátíðardaginn. 

Klukkan 17:08 var tilkynnt um umferðaróhapp og reyndist ökumaður annars ökutækisins vera undir áhrifum fíkniefna auk þess að vera sviptur ökuréttindum.

Klukkan 17:50 var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna en hann er auk þess sviptur ökuréttindum og var með fíkniefni í fórum sínum.

Klukkan 22:15 var ökumaður stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur án ökuréttinda.

Klukkan 22:53 var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Á miðnætti var ökumaður stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum áfengis sem og fíkniefna. Hann er einnig sviptur ökuréttindum og við nánari athugun reyndist bifreiðin einnig vera ótryggð.

Klukkan 00:50 var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.

Klukkan 01:21 var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Klukkan 01:38 stöðvaði lögregla bílstjóra sem var undir áhrifum fíkniefna og farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna og brot gegn vopnalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert