Láta þreytu og lausar táneglur ekki stöðva sig

Hörður Halldórsson í fullum slökkviliðsskrúða. Hann segir hlaupið yfir hálendið …
Hörður Halldórsson í fullum slökkviliðsskrúða. Hann segir hlaupið yfir hálendið hafa gengið vel, þótt menn séu eðlilega orðnir þreyttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er nú bara að hlaupa núna,“ sagði Hörður Halldórsson þegar mbl.is hringdi í hann. Hörður hleypur nú um helgina yfir hálendi Íslands með hópi slökkviliðs- og björg­un­ar­sveit­ar­manna, 340 kíló­metra leið, til stuðnings Holl­vina­sam­tök­um Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri. 

Hópurinn átti um 30 km eftir í Árnes þegar mbl.is ræddi við Hörð. Þar munu menn hvíla sig áður en 42 km lokaspretturinn til Selfoss verður tekinn.

Að sögn Harðar, sem vílaði ekki fyrir sér að ræða við blaðamann á hlaupunum, hefur þeim gengið mjög vel. „Þetta var erfiðast þar sem við vorum að fara yfir fjöllin,“ segir hann. Flestir hafi hins vegar haft mest gaman af því að hlaupa í gegnum nóttina, en hópurinn lagði af stað frá Akureyri á föstudagsmorgun.

Sexmenningarnir sem hlaupa fyrir verkefnið Gengið af göflunum hafa hlaupið eins kon­ar boðhlaup yfir há­lendið. „Við vorum að hlaupa svona 10 km í einu í fyrstu, en nú miðum við við fimm kílómetra og ef menn geta hlaupið lengra þá gera þeir það,“ segir Hörður og kveður hljóðið í sexmenningunum vera gott. „Þrátt fyrir þreytu og lausar táneglur“, bætir hann við en félagarnir gera ráð fyrir að koma inn á Selfoss um ellefuleytið í fyrramálið.

Hlaupararnir klárir í slaginn á Akureyri í gærmorgun.
Hlaupararnir klárir í slaginn á Akureyri í gærmorgun. mbl.is/Þorgeir

Að þessu sinni er safnað fyr­ir hi­ta­kassa á barna­deild Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri. Í hitteðfyrra söfnuðust 1,2 millj­ón­ir króna fyr­ir ferðafóstru sem er gjör­gæslu­ein­ing fyr­ir nýbura og fyr­ir­bura. Þá gekk hóp­ur­inn m.a. Eyja­fjarðar­hring­inn, sem er 30 kíló­metr­ar, í full­um slökkviliðsskrúða. 

Hægt er að fylgj­ast með hlaup­inu á Snapchat, In­sta­gram og Face­book.

Kennitala holl­vina­sam­tak­anna er 640216-0500 og reikn­ings­núm­er 0565-26-10321.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert