Launar styrktarfélaginu greiðann

Arna Guðjónsdóttir greindist 14 ára með krabbamein. Í dag hefur …
Arna Guðjónsdóttir greindist 14 ára með krabbamein. Í dag hefur hún sigrast á veikindunum og ætlar að launa Styrktarfélagi krabbameinsveikra barna greiðann, sem félagið gerði henni á hennar „myrkustu tímum.“ Ljósmynd/Aðsned

Arna Guðjónsdóttir greindist fjórtán ára með krabbamein í nefholi 20. júlí 2017, daginn eftir að systir hennar varð níu ára. Arna hafði vikum og mánuðum saman verið óeðlilega kvefuð, með bólgna eitla og var farin að vakna á næturna með höfuðverk sem þurfti að slá á með lyfjum. Þar kom að hún heimsótti lækni, Sigríði Sveinsdóttur, háls-, nef- og eyrnalækni. Sú ákváð að taka sýni og kanna hvort eitthvað alvarlegt væri á ferðinni, svona rétt til öryggis, þó enginn sérstakur grunur léki þar á. Það var eins gott.

Arna fór í meðferð um haustið og missti af nokkrum mánuðum úr skóla. Hún naut góðs stuðnings fjölskyldu, lækna og ekki síst Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, SKB. Nú hleypur Arna fyrir styrktarfélagið í Reykjavíkurmaraþoninu og hefur þegar safnað 317.000 krónum. 

„Það er rosalega gaman að sjá allt fólkið sem er að styrkja mig og mikils virði að finna fyrir þeim stuðningi,“ segir Arna. Hún segir að með því að hlaupa til styrktar SKB vilji hún gefa til baka þann stuðning sem hún naut frá félaginu á meðan hún var veik. „SKB hjálpaði mér sannarlega að komast í gegnum myrkustu tímana í mínum veikindum,“ segir hún.

Til vinstri á myndinni er Helga María, litla systir Örnu. …
Til vinstri á myndinni er Helga María, litla systir Örnu. Stúlkan með húfuna er Arna Sif Lárusdóttir, litla systir Júlíu Rutar, stúlku sem Arna kynntist þegar hún var á göngudeild Barnaspítala Hringsins. Ljósmynd/aðsend

Arna ætlar að hlaupa 10 kílómetra í maraþoninu 24. ágúst. „Það er markmiðið! Vonandi dett ég ekki niður á leiðinni,“ segir hún. Hún er að mestu orðin hraust eftir eftirköst sem hún fékk í haust, þegar skjaldkirtillinn bilaði vegna geislameðferðarinnar sem hún hafði verið í. Þá var hún frá skóla í nokkrar vikur en Arna byrjaði í Verzlunarskóla Íslands haustið 2018. 

Gat ekki opnað munninn á tíma

Arna hefur í meðallagi mikla trú á sér sem hlaupara, þó að hún sé staðráðin í að hlaupa þessa 10 kílómetra. „Ég get ekki hlaupið neitt alltof mikið, ég lufsast bara hálfpartinn áfram,“ segir hún en meinar það auðvitað ekki alveg. „Ég er búin að vera að æfa mig. Ég reyni að hlaupa svona annan hvern dag. Stundum þarf mamma að draga mig af stað,“ segir Arna glöð í bragði.

Arna fór í lyfjameðferð með haustinu 2017 og byrjaði í geislameðferð í byrjun október það ár. Meðferðin kláraðist í nóvember, eftir að hún var orðin fimmtán ára. „Þá var ég rúmliggjandi í nokkurn tíma og var á tíma svo veik að ég gat hvorki talað né opnað munninn. Á meðan ég gat ekki borðað var helsta áhugamálið mitt að liggja og horfa á Food Network,“ segir Arna og hlær. Hún missti af nokkrum mánuðum úr 10. bekk en komst síðan inn í Verzló, þar sem hún verður næstu ár. Örnu skrikaði bara aðeins fótur og nú hleypur hún af stað út í lífið.

Reykjavíkurmaraþon er sem segir hlaupið 24. ágúst. Eins og stendur hafa safnast tæpar 40 milljónir í áheitum til ýmiss góðs málefnis. Hátt í fjögur þúsund hlauparar eru skráðir. Hér má heita á Örnu Guðjónsdóttur, sem nú er í 5. sæti yfir þá sem safnað hafa mestu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert