Lárus Welding safnað mestu

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hljóp hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í …
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hljóp hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í morgun og bætti tímann sinn um 8 mínútur frá því árið 2008 þegar hann hljóp vegalengdina í fyrsta sinn, þá sem forstjóri Glitnis. Samsett mynd

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur safnað hæstu upphæðinni í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, alls rúmlega þremur milljónum króna. Lárus hljóp 21,1 km fyrir Krýsuvíkursamtökin en hann er stjórnarformaður samtakanna. 

„Ég setti mér markmið að fara undir tveimur og safna yfir þremur. Eða Elli setti mér það markmið,“ segir Lárus í samtali við mbl.is og á þar við Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóra Krýsuvíkursamtakanna. 

Krýsuvíkursamtökin bjóða langtímameðferð fyrir þau sem glíma við fíknisjúkdóma.

„Hann byrjaði með þetta og sagðist fara hálfmaraþon í fyrsta sinn ef hann myndi safna milljón. Við vorum fljótir að safna í það og þá skoraði hann á mig að safna þrisvar sinnum hærri fjárhæð,“ segir Lárus sem náði einnig hinu markmiðinu, að hlaupa 21,1 km á undir 2 klukkustundum. 

Vantar 30-40 milljónir

Lárus segir hlaupið í dag hafa gengið vel og að alltaf sé stemning á þessum degi.

„Við erum að gera þetta núna því við erum að hefja söfnun. Þetta er byrjunin, við þurfum meira svona 30-40 milljónir. Við þurfum að fjölga plássunum í skólanum, úr 21 í 28. Við þurfum stærri samning við ríkið til að geta ráðið ráðgjafa og vöktun,“ segir Lárus. Samtökin hafa alls safnað 4,8 milljónum króna. 

„Fíkn er bara fíkn og hún kemur í ýmsum formum. Við sem erum í þessu þekkjum þetta vel, því miður. Biðlistarnir hafa verið að lengjast hjá okkur og nú eru yfir hundrað manns á biðlista. Við erum bara að reyna að stækka hjá okkur svo við getum tekið á móti fleirum,“ segir Lárus. 

„Við hvetjum heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin til að koma til okkar með stærri samning. Ég mun hringja í þá á mánudagsmorgun,“ segir Lárus. Enn er hægt að heita á Lárus og styrkja Krýsuvíkursamtökin á vef Reykjavíkurmaraþonsins.

„Vantaði bara Birnu“

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Lárus hljóp hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Það gerði hann einmitt þegar hann var forstjóri Glitnis, sumarið 2008, og Glitnir framlengdi samning sinn um að vera bakhjarl Reykjavíkurmaraþonsins. Það ár fór hann hálft maraþon á tveimur klukkutímum og sex mínútum. Forstjórinn bætti því tímann frá 2008 um 8 mínútur. 

„Það er náttúrulega fyndið fyrir mig að vera með þessa tengingu. Ég hljóp fyrst hálfmaraþon þegar ég var í Glitni. Bjarni Ármanns [sem einnig er fyrrverandi forstjóri Glitnis] var að hlaupa hérna líka, það vantaði bara Birnu [Einarsdóttur, fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka],“ segir Lárus og bendir líka á að núverandi bankastjóri Íslandsbanka, Jón Guðni Ómarsson, hafi hlaupið tíu kílómetra í morgun. 

Lárus tók við Bjarna (t.v.) í Glitni árið 2007.
Lárus tók við Bjarna (t.v.) í Glitni árið 2007. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Bjarni Ármannsson hljóp heilt maraþon með hlaupahópnum HHHC sem var að hlaupa sitt sjötta maraþon á sex dögum. Hefur hann safnað 221 þúsundum fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Jón Guðni hljóp fyrir Ljósið - endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og hefur safnað 108 þúsund

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert