Enginn með hálfsárslager lyfja á bið

Geir Ólafsson söngvari segist aldrei hafa lent í því áður …
Geir Ólafsson söngvari segist aldrei hafa lent í því áður að lyfið sé ekki til í apótekum. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Tryggja þarf að lyfsalar eigi alltaf nægar birgðir af nauðsynlegum lyfjum til að ekki komi upp skortur, ef eitthvað bjátar á hjá framleiðanda erlendis. Þetta segir Geir Ólafsson söngvari. 

Geir þarf á svokölluðum beta-blokkara að halda, lyfinu sotalol sem vinnur gegn hjartatruflunum og hefur hann tekið lyfið daglega í 18 ár. Er hann hugðist sækja nýjan skammt í apóteki um helgina var honum tjáð að lyfið væri uppselt og fengist ekki fyrr en í fyrsta lagi 23. ágúst.

„Ég var sem betur fer heppinn,“ segir Geir. Hann hafi orðið sér úti um undanþágulyfseðil og getað fengið, í öðru apóteki, samheitalyf sem kemur í stað lyfsins bráðnauðsynlega. „Ef það hefði ekki gengið eftir hefði ég verið í vondum málum,“ segir Geir og bætir við að hættulegt sé að snögghætta á lyfinu. „Ég hef einu sinni á þessum 18 árum gleymt að taka skammtinn, og fráhvarfseinkennin koma strax fram.“

Rúnar Guðlaugsson, sérfræðingur í upplýsingadeild Lyfjastofnunar,  segir þó ekki hlaupið að því að koma í veg fyrir skort með öllu. Ýmsir þættir geti valdið skorti, svo sem skortur á virka efninu í framleiðslunni eða óhapp í geymslu eða flutningi. Slíkur skortur geti haft langan aðdraganda, til dæmis hafi tvær týpur af umræddu lyfi, sotalol, verið ófáanlegar síðan í mars, annars vegar, og júní, hins vegar. „Það er enginn að fara að liggja með hálfsárlager á bið,“ segir Rúnar. Því fylgi ógurlegur kostnaður.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert