Takmörkuð geta til að veita hjálp

Þór hefur reynst Landhelgisgæslunni vel en þörf er á minnst …
Þór hefur reynst Landhelgisgæslunni vel en þörf er á minnst þremur góðum skipum í rekstri svo stuðla megi að góðu viðbragði Gæslunnar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Leitar- og björgunarsvæði Íslands er það stórt að við höfum lítinn mátt til að sinna því. Ef upp kemur umfangsmikið slys á norðurslóðum höfum við í raun ósköp takmarkaða möguleika til að veita hjálp,“ segir Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, í Morgunblaðinu í dag.

Hann hélt í vikunni fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni um áhættugreiningu og áhættumat. Var það hluti af fyrirlestraröð Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands, en málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum árum. Í ávarpi sínu fjallaði Björn sérstaklega um verkefni þar sem áhættugreining og áhættumat er notað til að meta áhættu og björgunarmöguleika vegna slysa á norðurslóðum.

Björn segir ljóst að efla þurfi björgunarmátt Íslendinga vegna aukinnar umferðar á norðurslóðum. „En ég tel það ekki vera rétt að íslenskir skattgreiðendur eigi einir að standa að þeirri uppbyggingu. Það er í raun ekki hægt að ætlast til þess. Mun frekar ættu menn að setja ábyrgðina á þá sem eru að athafna sig á norðurslóðum, að þeir greiði fyrir sitt,“ segir hann.

Íslenska leitar- og björgunarsvæðið er 1,9 milljónir ferkílómetra að flatarmáli. Er það næstum tuttugufalt flatarmál Íslands og ber Landhelgisgæslan ábyrgð á að hefja og stýra öllum aðgerðum vegna flug- og sjóatvika á þessu svæði. Þannig starfar Landhelgisgæslan á svæði sem nær langt suður fyrir Grænland, austur fyrir Færeyjar og norður fyrir Jan Mayen. Teygir svæðið sig að hluta yfir efnahagslögsögu fimm ríkja, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert