Tæplega 40 morð á tveimur áratugum

37 morð voru framin á íslandi á árunum 1999 til …
37 morð voru framin á íslandi á árunum 1999 til 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á Íslandi voru 37 morð framin ár árunum 1999-2018 samkvæmt málaskrá lögreglu. Í 43% tilvika voru náin tengsl eða fjölskyldutengsl á milli geranda og brotaþola. 

Í 35% tilfella voru gerandi og brotaþoli vinir eða kunningjar, en í 22% tilfella voru gerandi og brotaþoli ókunnugir. 24 fórnalömb voru karlkyns en 13 kvenkyns.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrés Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna um fjölda manndrápa á árunum 1999-2018. Þá sneri fyrirspurn Andrésar einnig að heimilisofbeldi, og þá sérstaklega hvernig skráningu heimilisofbeldis sé háttað hjá lögregluembættum. 

Mikil aukning tilvika í kjölfar endurskoðunar á verklagsreglum

Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að heimilisofbeldi sé ekki lagagrein, nema um sé að ræða brot sem falli undir 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Um mál sem ekki falli undir 218. gr. b. séu sérstakar verklagsreglur. Öll lögregluembætti landsins skrá heimilisofbeldi í málaskrá samkvæmt þeim verklagsreglum. 

Fjöldi brota á 218. gr. b. almennra hegningarlaga voru 77 árið 2017, 82 árið 2018 og 49 frá janúar fram í ágúst á þessu ári. 

Fjöldi tilvika heimilisofbeldis eru mun fleiri en brot gegn 218. gr. b. almennra hegningarlaga. 

Á árunum 2008—2014 voru heimilisofbeldismál á bilinu 265—413 talsins á ári hverju. Árið 2014 voru verklagsreglur um heimilisofbeldi endurskoðaðar og varð mikil aukning á heimilisofbeldismálum í kjölfarið. Árið 2014 voru 413 mál skráð, en árið 2015 voru málin 807. Má þessa gríðarmiklu aukningu helst rekja til markvissari skráningar í kjölfar endurskoðunar verklagsregla. 

Á síðasta ári voru 866 heimilisofbeldismál skráð á málaskrá lögreglu, þar af voru 702 þeirra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Frá janúar þessa árs fram í ágúst hafa 606 tilvik heimilisofbeldis verið skráð á málaskrá lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert