RÚV ber að stofna dótturfélag

Ríkisútvarpið við Efstaleiti.
Ríkisútvarpið við Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisútvarpinu ber að uppfylla lagalegar skyldur um stofnun dótturfélags fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu. Standi vilji stjórnvalda ekki til þessa þurfa þau að beita sér fyrir lagabreytingu.

Þetta kemur fram í úttekt ríkisendurskoðunar á Ríkisútvarpinu ofh., sem var unnin eftir fyrirspurn mennta- og menningarmálaráðuneytis um fjárhagslega aðgreiningu almannaþjónustu og samkeppnisreksturs í bókhaldi félagsins.

Til að auka gagnsæi um aðskilnað fjölmiðla í almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar og tryggja fjárhagslegan aðskilnað þarf RÚV ohf. að verðmeta auglýsingarými milli dagskrárliða og tekju- og gjaldfæra með viðeigandi hætti, að því er kemur fram á vefsíðu ríkisendurskoðunar.

Ríkisendurskoðandi bendir á að efla þurfi fjárhagslegt eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins og leggur til að fjármála- og efnahagsráðuneyti fari með hlut ríkisins í félaginu í stað mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Þá telur ríkisendurskoðandi rétt að tryggt verði með betri hætti en nú er gert að a.m.k. hluti stjórnarmanna í RÚV hafi sérþekkingu á fjármálum.

Rekstrarafkoma RÚV ohf. á tímabilinu 2013–18 var jákvæð um 1,5 milljarða króna. Sú afkoma skýrist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili verið neikvæð um 61 milljón króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.

Fjárhagsleg endurskipulagning hófst hjá RÚV ohf. árið 2014 og hefur hún skilað RÚV hallalausum rekstri frá árinu 2015. Ríkisendurskoðandi bendir þó á að greiðslugeta félagsins er enn veik og fjárhagsleg staða félagsins viðkvæm.

Undirstrikar góðan árangur undanfarinna ára

Í tilkynningu frá RÚV kemur fram að skýrslan staðfesti margt sem stjórn og stjórnendur RÚV hafa áður vakið athygli á og hún undirstriki þann mikla árangur sem orðið hafi af aðgerðum undanfarinna ára til að styrkja rekstur RÚV og efla almannaþjónustuhlutverk þess. 

„Í skýrslunni kemur fram að fjárhagsleg endurskipulagning RÚV síðustu ár hefur skilað miklum árangri og það ásamt „niðurfellingu skuldar við ríkissjóð og sölu byggingarréttar á lóð félagsins hefur skilað sér í hallalausum rekstri frá árinu 2015.“ Í skýrslunni er hvatt til þess að „stjórn Ríkisútvarpsins, stjórnendur þess og eigandi fylgi því eftir að félagið nái að viðhalda þeim fjárhagslega styrk sem það hafði í lok árs 2018,“ segir í tilkynningunni.

Kári Jónasson, formaður stjórnar RÚV, fagnar skýrslunni og segir að hún staðfesti jákvæðar breytingar og mikinn árangur sem hafi náðst með aðgerðum undanfarinna ára. „Hún staðfestir einnig margt sem stjórn og stjórnendur RÚV hafa áður vakið athygli á. Það eru nokkrar góðar ábendingar til RÚV í skýrslunni og ekki síður til ráðuneytisins og Alþingis. Þær munu án efa nýtast við að innleiða áframhaldandi um,“ segir hann í tilkynningunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hari

Mikilvægt að eyða óvissu 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur einnig sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að úttektin sé gagnleg. 

„Það er mikilvægt að eyða allri óvissu um bókhald Ríkisútvarpsins og fjárhagslegan aðskilnað almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar. Ríkisendurskoðun tekur af öll tvímæli um nauðsyn þess að stofna dótturfélag fyrir samkeppnisrekstur og ég mun beina þeim tilmælum til stjórnar, að þeirri vinnu verði hraðað. Aðrar tillögur til úrbóta eru gagnlegar, ýmist ráðuneytinu, stjórn félagsins eða Alþingi sjálfu, og við tökum þær alvarlega. Það er t.d. mjög brýnt að rekstur félagsins sé sjálfbær og stjórn sinni sínu eftirlitshlutverki,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert