Viðskiptabanni ekki aflétt enn

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, áttu fund í Moskvu í dag. Utanríkisráðuneyti Rússlands

Ekki voru gefin nein fyrirheit um að viðskiptabanni Rússa á tiltekin íslensk matvæli verði aflétt, að því er fram kom á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu í morgun.

„Við höfum haldið okkar sjónarmiðum á lofti hvað það varðar að viðskiptabannið er ekki í neinu samræmi við þær refsiaðgerðir sem Vesturlönd standa að,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði ánægjulegt að sjá að viðskipti á milli Íslands og Rússlands fari mjög vaxandi, sérstaklega á sviðum þar sem við þurfum að auka útflutning okkar.

Þeir Guðlaugur Þór og Lavrov ræddu norðurslóðamál, tvíhliða samskipti og viðskipti á fundinum. Öryggismál í Evrópu og alþjóðamál voru einnig rædd. Þetta var í fyrsta sinn í átta ár sem utanríkisráðherra Íslands fór til Moskvu til fundar við utanríkisráðherra Rússlands.

Útflutningshindarnir og möguleikar

Sem kunnugt er settu Rússar viðskiptabann á tiltekin matvæli frá vestrænum ríkjum árið 2014 og var Íslandi bætt á þann lista ári síðar. Það var gert vegna stuðnings þessara landa við refsiaðgerðir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússum vegna Krímskaga. Guðlaugur Þór sagði í samtali að viðskiptabannið hafi komið harkalega niður á Íslendingum. Auk þess hafa ekki fengist heimildir til að flytja íslensk matvæli, sem ekki eru á bannlistanum, til Rússlands vegna rússneska matvælaeftirlitsins.

„Ég tók hvort tveggja upp á fundinum,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði að Lavrov hafi talið að það sem sneri að matvælaeftirlitinu væri fyrst og fremst framkvæmdalegs eðlis. Haldið verður áfram að þrýsta á breytingar á því. Guðlaugur Þór kvaðst vona að einhver árangur muni nást í þeim efnum.

Margt bar á góma á fundi utanríkisráðherra Íslands og Rússlands …
Margt bar á góma á fundi utanríkisráðherra Íslands og Rússlands í Moskvu í dag. Utaníkisráðuneyti Rússlands

„Við sjáum að íslensk hátæknifyrirtæki eru búin að gera stóra viðskiptasamninga í Rússlandi og eru að hasla sér völl á þeim markaði,“ sagði Guðlaugur Þór. Fyrst og fremst er um að ræða tækni og tækjabúnað í tengslum við fiskveiðar og fiskvinnslu. Einnig nefndi hann aukinn ferðamannastraum frá Rússlandi til Íslands. Þá er nýbúið að setja upp verksmiðju í Rússlandi sem framleiðir skyr eftir íslenskri uppskrift úr rússneskri mjólk. „Það er margt að gerast í viðskiptum þjóðanna og mikill áhugi á Rússnesk-íslenska viðskiptaráðinu sem var stofnað nýverið,“ sagði Guðlaugur Þór.

Fékk íslenska landsliðstreyju

Sem kunnugt er var frú Lavrova, móðir Sergeis utanríkisráðherra, á meðal helstu viðmælenda íslenskra viðskiptanefnda sem sömdu við Sovétríkin á sínum tíma um sölu á íslenskum afurðum þangað og kaup á vörum frá Sovétríkjunum. Frú Lavrova kom hingað til lands vegna þeirra viðskipta. Í lok fundarins með Sergei Lavrov færði Guðlaugur Þór honum treyju íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

„Íslenska landsliðið vann hug og hjörtu Rússa í heimsmeistaramótinu. Hér þekkja allir íslenska landsliðið. Það var gaman að gefa Lavrov þessa treyju, hann tók þessu mjög vel,“ sagði Guðlaugur Þór. Þess má geta að á baki treyjunnar var föðurnafn utanríkisráðherrans skrifað á íslenskan hátt, það er Viktorsson.

Guðlaugur Þór og Lavrov funduðu síðast í Rovaniemi í Finnlandi í maí sl. þegar Ísland tók við formennsku í norðurskautsráðinu. Rússland tekur svo við formennskunni í maí 2021. Guðlaugur Þór sagði að þeir Lavrov hafi undirritað yfirlýsingu sem á að tryggja að áfram verði góð samfella á milli formennskuáætlana og áherslna í starfi norðurskautsráðsins eins og verið hefur á þeim vettvangi.

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins um fund utanríkisráðherranna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert